Ársverðbólga á evrusvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða og mældist 2% í októbermánuði sem er í takti við verðbólgumarkmið Evrópska Seðlabankans.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 2,7% sem er ofar markmiðum bankans.
Samkvæmt Financial Times eykur þetta líkurnar á fjórðu vaxtalækkun bankans í röð en hagfræðingar búast við um 25 punkta lækkun í nóvember.
Forsvarsmenn bankans eru sagðir sannfærðir um að evrusvæðið, sem nær til tuttugu landa, sé að ná tökum á verðbólgunni sem hefur verið til mikilla vandræða eftir innrás Rússlands í Úkraínu snemma árs 2022.
Verðhækkanir á orku í Evrópu hafa verið stór drifkraftur verðbólgunnar.
Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, segir hins vegar of snemmt að hrósa sigri.
„Ég er ekki að segja ykkur að verðbólgan sé sigruð,“ segir Lagarde í samtali við franska fjölmiðilinn Le Monde í dag.
Evrusvæðið hefur verið að glíma við hægari hagvöxt en víða annars staðar en aukin efnahagsleg umsvif á þriðja ársfjórðungi eru sögð ástæða þess að verðbólga hækkaði örlítið milli mánaða.
Þjónustuverðbólga á ársgrundvelli nam 3,9% og þá var atvinnuleysi á evrusvæðinu 6,3% í lok septembermánaðar.
„Öll gögnin benda til haukalegrar stefnu,“ segir Tomasz Wieladek, aðalhagfræðingur T Row Price, í bréfi til fjárfesta sem FT greinir frá.