Samkvæmt peningamálum Seðlabanka Íslands hafa verðbólguhorfur lítið breyst frá því í maímánuði.
Nokkuð dró úr verðbólgu á fyrri hluta þessa árs og mældist hún 6% að meðaltali á öðrum fjórðungi ársins eins og spáð var í maí eða tæplega 2 prósentum minni en hún var að meðaltali á fjórða ársfjórðungi í fyrra.
Verðbólgan jókst hins vegar á ný í júlí í 6,3%. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig og mældist 4,2% og undirliggjandi verðbólga jókst í 5,3%.
„Aukning verðbólgunnar virðist því vera á tiltölulega breiðum grunni og fáar vísbendingar um lækkun verðbólguvæntinga er að finna enn sem komið er. Verðbólguhorfur breytast hins vegar lítið frá því í maí. Lakari upphafsstaða skýrir heldur meiri verðbólgu en spáð var í maí fram á fyrri hluta næsta árs en frá þeim tíma er gert ráð fyrir að verðbólga hjaðni í takt við maíspána og verði komin í markmið á seinni hluta árs 2026,“ segir í Peningamálum.
Verðbólga hefur reynst þrálát og enn virðist vera nokkur verðbólguþrýstingur til staðar. Gert er ráð fyrir að ársverðbólga verði 6,3% á þriðja ársfjórðungi og að hún minnki í 5,8% á síðasta fjórðungi ársins.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í morgun.
„Þetta er heldur meira en búist var við í maí sem skýrist af lakari upphafsstöðu en verðbólguhorfur hafa í raun lítið breyst frá því sem áður var talið. Spennan í þjóðarbúskapnum er talin vera lítillega minni en að hún snúist í slaka á næsta ári eins og áður var talið. Enn fremur er útlit fyrir að launakostnaður aukist heldur minna á þessu og næsta ári en áður var búist við. Á móti vegur að verðbólguvæntingar hafa lítið breyst og kjölfesta þeirra við markmið hefur laskast,“ segir í Peningamálum.