Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og fyrrverandi nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans og Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, nefna í nýrri skýrslu tækifæri fyrir ríkið til að koma peningastefnunni til hjálpar þegar eftirspurn er mikil án þess að þurfa að hækka skattprósentur eða fresta framkvæmdum og viðhaldi á innviðum.
Meðal tillagna er að boðið verði upp á bundna sparnaðarreikninga í bönkum eða lífeyrissjóðum sem njóti skattalegs hagræðis hvað ávöxtun varðar. Markmiðið sé að búa til hvata til sparnaðar þegar eftirspurn er mikil og verðbólga fer vaxandi.
„Með fyrstu tillögunni er reynt að styðja peningastefnuna með því að örva sparnað svo ekki þurfi að hækka vexti jafnmikið þegar eftirspurn er mikil og verðbólga fer vaxandi,“ segir í skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu efnahagsmála á haustmánuðum.
Bent er á að í Bretlandi hafi slíkir reikningar verið til síðan árið 1999 (ISA, Individual savings account). Fólk geti þar lagt allt að 3,5 milljónir íslenskra króna (20 þúsund pund) inn á slíkan reikning á hverju ári sem síðan er hægt að ráðstafa á bankareikning eða fjárfesta í skuldabréfum eða hlutabréfum.
„Með þessu kemst fólk hjá fjármagnstekjuskatti eftir að hafa greitt tekjuskatt af upphaflegum tekjum. Reikningur getur verið bundin með hærri vöxtum eða laus. Unnt er að nota reikningana fyrir almennan sparnað og einnig til þess að fjármagna fyrstu íbúðarkaup eða eftirlaun eða leggja inn á reikning í nafni ólögráða barna sem losna þegar börnin verða 18 ára.“
Verðbólguskattur veikir miðlunarferlið
Gylfi og Sigurður stinga einnig upp á tveimur leiðum til að reyna að styrkja miðlunarferli peningastefnunnar með því að letja sparifjáreigendur til þess að bregðast við verðbólgu með fasteignakaupum „sem síðan hækka húsnæðisverð, greidda og reiknaða leigu og þá einnig mælda verðbólgu“.
Þannig leggja annars vegar til að skattar á verðbætur og vaxtagreiðslur vegna verðbólgu verði lækkaðir. Þetta mætti gera með því að færa verðbólgu til gjalda í skattframtali á móti vaxtatekjum af óverðtryggðum bankainnistæðum og verðbótum á verðtryggðum reikningum.
„Þá leggst fjármagnstekjuskattur í meira mæli á mismun nafnvaxta og verðbólgu og minna mæli á verðbólgu.“
Meðfylgjandi tafla, sem tekin er úr skýrslunni, sýnir ávöxtun á bankareikningum fyrir og eftir skatta á óverðtryggðum og verðtryggðum sparnaðarreikningi, miðað við núverandi vaxtastig.
Í skýrslunni segir að það komi fjármagnseigendum illa að nafnávöxtun sé skattlögð með 22% skatti, vegna þess að verðbólguhluti vaxtateknanna felur ekki í sér raunávöxtun.
Skýrsluhöfundar taka dæmi þar sem nafnvextir á óverðtryggðum sparnaðarreikningi eru 9% og verðbólga einnig. Þá sé raunávöxtun fyrir skatta 0% en raunávöxtun eftir skatt tæplega neikvæð um 2%.
Þá losni sparifjáreigandi ekki við skattlagningu á verðbólgu þótt hann færi sparnað sinn yfir á verðtryggðan reikning. Í þessu bætist verðbólgan við höfuðstólinn sem verðbætur sem eru skattlagðar.
Þeir taka dæmi um verðtryggðan sparnaðarreikninga með 1,7% raunvexti. Sé verðbólga í 6% þá verður raunávöxtun eftir skatta núll vegna þess að verðbólgan, þ.e.a.s. verðbæturnar, eru skattlagðar sem fjármagnstekjur.
„Afleiðingin af skattlagningunni er sú að vaxtafarvegur peningastefnunnar veikist vegna þess að hvati til sparnaðar er lítill. Raunávöxtun eftir skatta er minni vegna verðbólguskattsins,“ segja skýrsluhöfundar og bæta við að þessi skattlagning og áhrif hennar á raunávöxtun sparnaðarreikninga eftir skatta dragi úr áhrifum peningastefnunnar á einkaneyslu og sparnað.
Gylfi og Sigurður leggja einnig til að reglur um skatta á söluhagnað á húsnæði í öðru en í beinum eigin afnotum verði þrengdar.
„Þegar raunvextir eftir skatta eru lágir er við því að búast að margir sparifjáreigendur sjái sér leik á borði og kaupi húsnæði sem veldur því að húsnæðisverð tekur að hækka. Söluhagnaður af húsnæði öðru en eigin íbúðarhúsnæði er skattfrjáls upp að ákveðnu marki. Það eykur eftirspurn.
Hægt væri að þrengja þennan ramma til þess að minnka hvata til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði og jafnframt auka raunávöxtun á bankareikningum eftir skatta með því að leyfa sparifjáreigendum að draga frá fjármagnstekjum margfeldi verðbólgu og höfuðstóls inneignar á sparifjárreikningum, að hluta eða að öllu leyti.“
Bjóði verktökum skattalegt hagræði til að reisa ódýrar íbúðir
Í skýrslunni segir að það sem einkum geri Íslendingum lífið erfitt þessa dagana sé staðan á húsnæðismarkaði. Hátt verð á húsnæði í samanburði við laun, háir vextir á húsnæðislánum og há leiga skerði lífskjör fjölda fólks. Gylfi og Sigurður segja orsakir þess vanda sem uppi er vera margþættan og að engin töfralausn sé til.
Þeir benda á að háir raunvextir geti valdið því að framboð húsnæðis verði minna í framtíðinni þegar vextir loksins lækka og eftirspurn eykst aftur.
Til þess að hvetja verktaka til framkvæmda í þegar vextir eru háir gætu stjórnvöld boðið upp á skattalegt hagræði fyrir þau verktakafyrirtæki sem reisa ódýrar og hagkvæmar íbúðir.
„Mögulegt væri að auka þetta skattalega hagræði þegar raunvextir mældir í húsnæði eru óvenjuháir, þ.e.a.s. þegar, annars vegar, útlánavextir til fyrirtækja eru háir í samanburði við verðhækkanir á húsnæðismarkaði og, hins vegar, húsnæðisverð er ekki hátt í samanburði við byggingarkostnað.“
Skattalegt hagræði fælist í að leyfa frádrátt frá hagnaði vegna kaupa á landi eða vegna byggingarkostnaðar. Kostnaðurinn yrði dreginn frá söluverði eigna en þessu til viðbótar kæmi þá hlutfallslegur frádráttur (t.d. 10% af byggingarkostnaði) sem draga mætti frá tekjum á skattframtali.
„Skattalegt hagræði sem þetta er unnt að nota til að beina framkvæmdum í þær tegundir húsnæðis sem stjórnvöld telja mesta þörf á, t.d. ódýrt húsnæði fyrir fyrstu kaupendur.“
Til að hægja á húsnæðismarkaði leggja þeir einnig til að metið verði umfang útleigu íbúðarhúsnæðis í þéttbýli til ferðamanna (Airbnb). Ef umfangið sé nægilega mikið til þess að hafa umtalsverð áhrif á húsnæðisverð þá væri hægt að takmarka starfsemina frekar en gert er.