Verðbréfasjóðir áttu 55% af þeim Íbúðabréfum sem skipt var fyrir ríkisskuldabréf í nýafstöðnu skiptiútboði ÍL-sjóðs. Til skoðunar er að efna til frekari skiptiútboða á nýju ári, en frá og með febrúar þegar flokkurinn HFF 24 verður greiddur upp að fullu munu lífeyrissjóðir eiga 96% af heildarskuldum ÍL-sjóðs.
Fram kemur að lífeyrissjóðir áttu 12% útboðsins fyrir alls 4,6 milljarða, en eins og greint var frá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins skipti Brú lífeyrissjóður og sjóðir í hans stýringu á 3,9 milljörðum af Íbúðabréfum fyrir verðtryggð ríkisskuldabréf. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar nú fyrir skemmstu.
Ekki kemur fram í tilkynningunni hverjir stóðu að baki þeim þriðjungi útboðsins sem eftir stendur, en meðal „annarra flokka eigenda“ bréfanna verða eftir uppgreiðslu HFF 24 tryggingafélög og -sjóðir stærst með um 2% heildarskulda lánasjóðsins.