Eftir 5,5 milljarða króna fjármögnunarlotu í síðustu viku er metið heildarvirði leikjasprotans Klang Games nú „margfalt“ þeir 15 milljarðar sem það var fyrir þremur árum síðan þegar félagið sótti sér síðast fjármagn.
Guðmundur Hallgrímsson framkvæmdastjóri og einn stofnenda félagsins – sem betur er þekktur sem Mundi vondi – er í skýjunum með árangurinn. Hann segir félagið nú fullfjármagnað til að geta komið fyrstu vöru sinni, fjölspilunarleiknum SEED, á markað og haft af honum nægar tekjur til að reksturinn standi undir sér.
„Við sáum fram á að við þyrftum að stækka til að klára leikinn, og þó að við höfum átt nokkuð ríflegan sjóð á þeim tíma þá hefði hann ekki dugað til þess einn og sér,“ segir Mundi, en fjármagnið verður meðal annars notað til að tvöfalda starfsmannafjölda innan 12 mánaða í 150.
Heildarfjármögnun frá stofnun 2013 er nú orðin tæpir 11 milljarðar króna sé miðað við gengi dagsins í dag. Stofnendurnir gefa ekki upp hvað þeir eiga stóran hlut eftir, en í viðtali við Viðskiptablaðið í fyrra sagði Mundi það vera „góðan hlut“.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.