Patrick Mahomes, leikstjórnandi ameríska fótboltaliðsins Kansas City Chiefs, er sennilega stærsta nafn NFL deildarinnar en hann er á mála hjá þýska íþróttavöruframleiðandanum Adidas.
Fyrr á þessu ári sagði Bjørn Gulden, forstjóri Adidas, að fyrirtækið hafi ekki gert sér nægt mat úr því að vera með jafn stórkostlegan íþróttamann og Mahomes á sínum snærum í fortíðinni.
Í síðustu viku hækkaði Adidas afkomuspá sína fyrir yfirstandandi rekstrarár og sagði vörumerkið njóta mikils meðbyrs. Á sama tíma var gefin út ný Mahomes strigaskóalína. Adidas vonast eflaust eftir því að Mahomes geti orðið svar félagins við áberandi samstarfi helstu keppinautanna í Nike við körfuboltagoðsögnina Michael Jordan.
Í umfjöllun Wall Street Journal er þó bent á að þrátt fyrir að amerískur fótbolti sé langvinsælasta íþrótt í Bandaríkjunum hafi ekki tekist nógu vel til hjá vörumerkjum að mala gull af samstarfi við NFL leikmenn.
Er bent á að leikmennirnir klæðist hjálmum og öðrum hlífðarbúnaði í leikjum og því erfitt að færa þá ímynd út í hversdagfatnað.