Félag kokksins Stefáns Viðarssonar, Sv veitingar sf., hagnaðist um 84 milljónir króna í fyrra og námu launagreiðslur 170 milljónum samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Félagið er efst á lista yfir þau samlags- og sameignarfélög sem greiddu mestan tekjuskatt í fyrra. Stefán, sem stýrði lengi eldhúsum Icelandair hótelanna, stýrir í dag stórum mötuneytum undir merkjum félagsins.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birtir.

Wake up Reykjavík, sem býður upp á skemmtitúra í miðbæ Reykjavíkur, var í efsta sæti listans í síðustu úttekt Viðskiptablaðsins en er nú í öðru sæti. Félagið, sem er í eigu Daníels Andra Péturssonar og Egils Fannars Halldórssonar, hagnaðist um 76 milljónir og námu launagreiðslur 82 milljónum.

Ferðaþjónustufyrirtækið Kleif slf., félag sem sér um rekstur á lúxusvillunni Kleif Farm í Ei­lífs­dal í Kjós, færist aftur á móti upp um eitt sæti milli ára.

Alls eru þrjátíu fyrirtæki á sviði verslunar og þjónustu á lista Viðskiptablaðsins en áætlaður hagnaður þeirra nemur samanlagt 984 milljónum króna og jókst um 37% milli ára. Launagreiðslur námu 1,2 milljörðum og jukust um 29%.

Meðal annarra félaga á listanum eru félög í eigu hárgreiðslumeistarans Baldurs Rafns Gylfasonar, úrsmiðsins Gilberts Ólafs Guðjónssonar, brytans Jóhanns Gunnars Arnarssonar, og verslunareigandans Gerðar Huldar Arinbjarnardóttur.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.