Velta Melabúðarinnar nam 1,2 milljörðum króna í fyrra samanborið við 1,16 milljarða árið áður. Á móti kemur nam kostnaðarverð seldra vara 860 milljónum og annar rekstrarkostnaður 87 milljónum. Laun og launatengd gjöld námu 201 milljón miðað við 187 milljónum fyrir ári en stöðugildum fjölgaði úr 25 í 27. Auk þess námu eignir félagsins 277 milljónum í árslok og bókfært eigið fé 93,5 milljónum.

Að sögn Snorra, einn eigenda Melabúðarinnar, er það breidd í vöruvali og áhersla á nýjungar sem gerir Melabúðina frábrugðna hinum hefðbundnu stórmörkuðum. „Þú finnur hjá okkur vöru sem þú finnur oft ekki annars staðar. Fólk endaði kannski hjá okkur en núna byrjar það hjá okkur og þarf ekki að fara annað.“

Þeir bræður eru sammála um það að Melabúðin leggi mikið upp úr því að vera verslun sælkerans, og að matargæðingarnir leiti oftar en ekki til þeirra. „Við tökum nýjungum frá íslenskum frumkvöðlum fagnandi og fólk sem vill prófa eitthvað nýtt kemur til okkar.  En við leitum líka vörurnar uppi innan verslunarinnar fyrir fólk eða pöntum jafnvel vörurnar fyrir það,  þar sem það eru alltaf fleiri matgæðingar sem eru að leita að sömu vöru. Hjá okkur er ekki til svarið. Ef það er ekki til í hillunni þá er það ekki til‘ eins og þú færð í sumum verslunum. Við aðstoðum þig alla leið.“

Snorri segir ýmislegt hafa breyst í matarinnkaupum Íslendinga í gegnum árin og áratugina. Fólk sækist til að mynda meira í lífrænar vörur og vegan vörur en áður fyrr. „Við bjóðum ennþá upp á gamla góða íslenska kjöt- og fiskmetið en sú eftirspurn fer minnkandi og þá bætum við í annars staðar. Fólk er líka opnara fyrir erlendum vörum og uppskriftum en áður fyrr og flytjum við inn ýmsar erlendar vörur sem birgjar flytja ekki inn.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.