Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar fjárfestingafélags, áður Skeljungs, sagði á uppgjörsfundi félagsins í morgun að félagið vilji hafa áhrif á þau félög sem það fjárfesti í.
Jón Ásgeir sagði að félagið væri komið með sterkan efnahagsreikning sem gæfi tækifæri til frekari fjárfestinga. „Þar munum við horfa til skráðra og óskráðra fjárfestinga. Við erum byrjaðir, eins og áður sagði í VÍS og Kaldalóni. Við erum ekki hlutabréfasjóður. Við erum að fjárfesta í félögum með tilgangi - til að koma með stuðning og framkvæma þau tækifæri sem við sjáum í rekstri þessara félaga. Það eru ákveðin skilaboð í því."
Jón Ásgeir sagði vinnu í gagni við að styrkja núverandi rekstrarfélög Skeljar sem og skoða ný fjárfestingatækifæri. „Við erum að vinna með verkefni til að útvíkka starfsemi núverandi félaga, auka veltu og breikka þeirra nálgun til síns markaðar. Um leið erum við að reyna að ná fram hagræðingu sem við höfðum fundið að væru tækifæri í við uppskiptingu og vinna í efnahagsreikningum."
Átta milljarðar í handbært fé
Skel birti uppgjör eftir lokun markaða í gær þar sem fram kom að félagið hafi hagnast um 3,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi. ráðgerir að hagnaður ársins verði 7,6 til 8,3 milljarðar króna. Þar af stafi um fimm milljarðar króna vegna sölu fasteigna sem að stærstum voru seld Kaldalóni, sem Strengur fer einnig með ráðandi hlut í. Dótturfélög Skeljar leigja fasteignirnar svo aftur af Kaldalóni.
Greint var frá því í síðustu viku að Skel væri komið með 7,3% hlut í VÍS og væri orðið stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópnum. Þá fékk félagið að hluta til greitt fyrir seldar fasteignir með 18% hlut í Kaldalóni. Handbært fé Skeljar eftir viðskiptin nemur hátt í níu milljörðum króna sem félagið hyggst nýta í frekari fjárfestingar.
Frá því að fjárfestingafélagið Strengur eignaðist meirihluta eða 50,06% í Skel, sem þá hét Skeljungur, í ársbyrjun 2021 hefur verið unnið að því að breyta því úr smásölufyrirtæki í fjárfestingafélag. Jón Ásgeir sagði uppgjörið það fyrsta þar sem félagið væri gert upp sem fjárfestingafélag. Töluverð vinna hafi farið í þessar breytingar.
Bættur grunnrekstur
Þá sagði Jón Ásgeir að rekstur rekstrarfélaga Skeljar hefði batnað á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hækkaði úr 184 milljónum í 733 milljónir á fyrsta fjórðungi á milli ára. Það væri að hluta af því að afkoma fyrsta ársfjórðungs 2021 hafi verið slök og þá hefur rekstur Löðurs og Lyfsalans bæst inn í samstæðuna á síðari hluta ársins 2021.
Afkoman hefði engu síður verið enn betri á fyrsta fjórðungi á þessu ári ef ekki hefði verið aftakaveður hér á landi í janúar og febrúar og komið til verðhækkana og óróa á olíumörkuðum vegna stríðsins í Úkraínu. Án þessara þátta hefði EBITDA-rekstrarhagnaðurinn að líkindum verið nær milljarði.