Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir allt benda til þess að hægst hafi á hag­kerfinu hér heima sam­hliða því að verð­bólga reynist þrá­lát. Megins­pá greiningar­deildar Ís­lands­banka gerir þó ekki ráð fyrir því að Ís­lendingar muni glíma við kreppu­verð­bólgu.

„Útflutningsmegin erum við síðan að sjá einhvern samdrátt í álinu vegna orkuskerðingar og síðan í sjávarútveginum vegna loðnubrests, í magni mælt allavega. Svo eru áhyggjur ferðaþjónustunnar líka um að það séu vísbendingar um að hægari vöxtur greinarinnar í ár en vænst var sé að raungerast,“ segir Jón Bjarki. Spurður hvort það sé vegna þess að háir vextir erlendis séu að bíta í mögulega ferðamenn, segir Jón Bjarki það meðal ástæðna.

„Það er aðeins að kreppa skóinn víða erlendis en í öðru lagi voru tíðindin af jarðhræringunum hér og fréttaflutningurinn í kjölfarið ekki til að hjálpa. Í þriðja lagi er það samkeppnisstaðan okkar við lönd sem bjóða upp á sambærilega upplifun, t.d. Noreg, Svíþjóð og Finnland. Við höfum heyrt frá ferðaþjónustunni að þeirra tengiliðir erlendis séu að fá þessa tilfinningu að athyglin sé í einhverju meiri mæli að beinast á þessi lönd,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki bendir á að þrátt fyrir að það sé að hægjast á hlutunum víða er enn seigla í öðrum þáttum t.d. íbúðamarkaði og vinnumarkaði. Tilfærslur í verðtryggð lán hafa meðal annars haldið íbúðamarkaðinum heitum á tímum hárra vaxta.

„Íbúðakaupendur og í einhverjum mæli þeir sem eru að endurfjármagna eru að sækja í verðtryggðu lánin og minnka greiðslubyrðina. Verðtryggð íbúðalán eru aftur orðin yfir helmingur útistandandi íbúðalána en það hlutfall fór lægst í 43% fyrir tveimur árum. “

Samkvæmt Hagstofunni jókst velta í fasteignastarfsemi um 17% á fyrstu tveimur mánuðum ársins og mátti rekja meginþorra hækkunarinnar til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig veruleg aukning í fasteignamiðlun.

Spurður um hvort það sé möguleiki á kreppuverðbólgu á Íslandi, segir Jón Bjarki greiningardeild Íslandbanka ekki gera ráð fyrir því.

„Okkar meginspá gerir ráð fyrir að við sleppum við það. Verðbólga verður vissulega nokkuð þrálát en hún fari ekki saman við beinan samdrátt þó að það hægist á vexti. En það er ekki hægt að útiloka það. Þar skiptir miklu máli hvernig útflutningsgreinunum reiðir af. Sér í lagi ferðaþjónustunni en einnig hinum vöruútflutningsgreinunum,“ segir Jón Bjarki.

Spurður um hversu stórt hlutverk orkuskorturinn gæti spilað í að draga úr útflutningstekjum, segir Jón Bjarki áhrifin takmörkuð í bili.

„Við erum reyndar að hluta til varin fyrir sveiflum í álinu með því að það er búið að aftengja rafmagnsverð að hluta álverðinu. Það eru reyndar ekkert endilega góðar fréttir þessa dagana því álverð hefur verið að hækka nokkuð hratt en það minnkar vissulega sveiflurnar í þeim virðisauka sem verður hér eftir í landinu. Þetta er auðvitað víkjandi orka sem er verið að skerða þannig að hún er seld á lægra verði en sú orka sem er búið að tryggja álverunum,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki segir orkuskort áhyggjuefni ef horft er lengra fram í tímann þar sem orka leikur lykilhlutverk í öflun útflutningstekna, með bæði beinum eða óbeinum hætti, og hefur því áhrif á hagvöxt

„Það er ekki sjálfgefið að við njótum eins mikið góðs af vaxandi orkuframboði eins og var raunin síðustu áratugi. Það er ekki mikið í pípunum og gengur illa að koma því á koppinn sem er búið að skipuleggja,“ segir Jón Bjarki.

„Kannski þurfa á endanum að raungerast fyrir alvöru áhrifin af þessu til að auka skilning á að þetta skiptir máli. Að við höfum krossbremsað í nýrri orkuframleiðslu.