Samkvæmt árshlutareikningi Kópavogsbæjar seldi sveitarfélagið lóðir fyrir 600 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins eftir nær engar lóðaúthlutanir árið 2023.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að bæjarfélagið sé reiðubúið til þess að selja fleiri lóðir en vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, sem voru undirrituð 2015, standi þeim í vegi.
Að hennar mati eru forsendurnar fyrir þeim vaxtarmörkum margbrostnar.
„Ef Kópavogsbær á að geta mætt vaxandi íbúðaþörf á höfuðborgarsvæðinu þá þarf að endurskoða vaxtarmörkin. Við höfum innviði og burði til að stækka byggt á sterkum tekjugrunni en okkur eru skorður settar vegna vaxtarmarka sem voru sett 2015. Við verðum að horfa með raunsæjum augum á stöðuna og viðurkenna að þétting innan núverandi vaxtarmarka mun ekki leysa húsnæðisvandann,“ segir Ásdís.
Hún bendir meðal annars á að þegar samkomulagið var undirritað var gert ráð fyrir að árleg fólksfjölgun yrði 1,1% en raunin hefur verið að meðaltali 1,9%, sem þýðir að fólksfjölgun frá 2015 hefur verið 17 þúsund nú þegar umfram það sem gert var ráð fyrir.
Á sama tíma var í þessum forsendum ekki gert ráð fyrir breyttri aldurssamsetningu þjóðar en hlutfall barnafjölskyldna hefur farið úr því að vera 39% í 27% frá árinu 2015.
Nýverið var greint frá því að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar beittu neitunarvaldi gegn því að vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins stækkuðu umfram svæðisskipulagið frá árinu 2015, en samkvæmt skipulaginu geta einstök sveitarfélög hafnað mögulegum breytingum á mörkunum.
„Það blasir við þegar við erum að glíma við framboðsskort. Núverandi uppbygging innan vaxtarmarka hamlar hraðari og meiri uppbyggingu sem er það sem við þurfum til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Við vitum öll að brýnasta hagsmunamál heimila er að verðbólga hjaðni og vextir lækki. Það tekst ekki nema jafnvægi náist á húsnæðismarkaði með auknu framboði,“ segir Ásdís.
„Ég veit ekki hvað ég hef séð margar húsnæðiskynningar undanfarin ár sem lofa áætlunum um mikla aukningu á framboði sem síðan stenst ekki. Uppbygging á þéttingarreitum tekur lengri tíma og er kostnaðarsamari. Við verðum að rýna í forsendur og viðurkenna að áframhaldandi taktur á uppbyggingu húsnæðis mun ekki mæta þörfum íbúa,“ segir Ásdís.
Á síðustu fimmtán árum hafa verið byggðar 1.280 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu árlega, talið er að við þurfum að byggja árlega 5.000 nýjar íbúðir til að mæta þörfinni.
Ásdís segir að ef kjörnir fulltrúar ætla að beita neitunarvaldi gegn breytingum á vaxtarmörkum þá þurfi þeir að svara því hvernig raunhæft sé að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði með öðrum hætti.
Ásdís segir Kópavogsbæ reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum til að mæta framboðsskortinum með hraðari og hagkvæmari uppbyggingu verði mörkunum breytt.
„Við teljum okkur geta byggt 5.000 íbúðir á svæði sem er utan vaxtarmarka. Slík uppbygging myndi gjörbreyta forsendum sem snúa að þeim viðvarandi framboðsskorti sem við höfum búið við í alltof langan tíma,“ segir Ásdís.
Reykjavíkurborg seldi lóðir fyrir 912 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, sem var meira en 1 milljarði undir áætlun. Sala byggingarréttar hjá borginni í fyrra var tæplega 2,7 milljörðum undir áætlun.