Sam­kvæmt árs­hluta­reikningi Kópa­vogs­bæjar seldi sveitar­fé­lagið lóðir fyrir 600 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins eftir nær engar lóða­út­hlutanir árið 2023.

Ás­dís Kristjáns­dóttir, bæjar­stjóri Kópa­vogs, segir í sam­tali við Við­skipta­blaðið að bæjar­fé­lagið sé reiðu­búið til þess að selja fleiri lóðir en vaxtar­mörk höfuð­borgar­svæðisins, sem voru undir­rituð 2015, standi þeim í vegi.

Að hennar mati eru for­sendurnar fyrir þeim vaxtar­mörkum marg­brostnar.

„Ef Kópa­vogs­bær á að geta mætt vaxandi í­búða­þörf á höfuð­borgar­svæðinu þá þarf að endur­skoða vaxtar­mörkin. Við höfum inn­viði og burði til að stækka byggt á sterkum tekju­grunni en okkur eru skorður settar vegna vaxtar­marka sem voru sett 2015. Við verðum að horfa með raun­sæjum augum á stöðuna og viður­kenna að þétting innan nú­verandi vaxtar­marka mun ekki leysa hús­næðis­vandann,“ segir Ás­dís.

Hún bendir meðal annars á að þegar sam­komu­lagið var undir­ritað var gert ráð fyrir að ár­leg fólks­fjölgun yrði 1,1% en raunin hefur verið að meðal­tali 1,9%, sem þýðir að fólks­fjölgun frá 2015 hefur verið 17 þúsund nú þegar um­fram það sem gert var ráð fyrir.

Á sama tíma var í þessum for­sendum ekki gert ráð fyrir breyttri aldurs­sam­setningu þjóðar en hlut­fall barna­fjöl­skyldna hefur farið úr því að vera 39% í 27% frá árinu 2015.

Ný­verið var greint frá því að for­svars­menn Reykja­víkur­borgar beittu neitunar­valdi gegn því að vaxtar­mörk höfuð­borgar­svæðisins stækkuðu um­fram svæðis­skipu­lagið frá árinu 2015, en sam­kvæmt skipu­laginu geta ein­stök sveitar­fé­lög hafnað mögu­legum breytingum á mörkunum.

„Það blasir við þegar við erum að glíma við fram­boðs­skort. Nú­verandi upp­bygging innan vaxtar­marka hamlar hraðari og meiri upp­byggingu sem er það sem við þurfum til að ná jafn­vægi á hús­næðis­markaði. Við vitum öll að brýnasta hags­muna­mál heimila er að verð­bólga hjaðni og vextir lækki. Það tekst ekki nema jafn­vægi náist á hús­næðis­markaði með auknu fram­boði,“ segir Ás­dís.

„Ég veit ekki hvað ég hef séð margar hús­næði­s­kynningar undan­farin ár sem lofa á­ætlunum um mikla aukningu á fram­boði sem síðan stenst ekki. Upp­bygging á þéttingar­reitum tekur lengri tíma og er kostnaðar­samari. Við verðum að rýna í for­sendur og viður­kenna að á­fram­haldandi taktur á upp­byggingu hús­næðis mun ekki mæta þörfum íbúa,“ segir Ás­dís.

Á síðustu fimm­tán árum hafa verið byggðar 1.280 nýjar í­búðir á höfuð­borgar­svæðinu ár­lega, talið er að við þurfum að byggja ár­lega 5.000 nýjar í­búðir til að mæta þörfinni.
Ás­dís segir að ef kjörnir full­trúar ætla að beita neitunar­valdi gegn breytingum á vaxtar­mörkum þá þurfi þeir að svara því hvernig raun­hæft sé að ná jafn­vægi á hús­næðis­markaði með öðrum hætti.

Ásdís segir Kópa­vogs­bæ reiðu­búinn til að leggja sitt af mörkum til að mæta fram­boðs­skortinum með hraðari og hag­kvæmari upp­byggingu verði mörkunum breytt.
„Við teljum okkur geta byggt 5.000 í­búðir á svæði sem er utan vaxtar­marka. Slík upp­bygging myndi gjör­breyta for­sendum sem snúa að þeim við­varandi fram­boðs­skorti sem við höfum búið við í allt­of langan tíma,“ segir Ás­dís.

Reykja­víkur­borg seldi lóðir fyrir 912 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, sem var meira en 1 milljarði undir á­ætlun. Sala byggingar­réttar hjá borginni í fyrra var tæp­lega 2,7 milljörðum undir á­ætlun.