Baldvin Björn Haraldsson, formaður Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands, segir gerðardómsmeðferð ekki jafn algenga á Íslandi og hún er á erlendri grundu. Sífellt fleiri íslensk fyrirtæki geri þó viðskiptasamninga sín á milli sem innihaldi ákvæði um úrlausn deilumála fyrir gerðardómi.

Baldvin Björn telur helstu ástæðu þess að gerðardómsmeðferð hefur ekki fest sig jafn vel í sessi á Íslandi og víða erlendis, líklega vera þá að málsmeðferðartími innan íslenska dómstólakerfisins sé ekki jafn langur og víða á erlendri grundu. „En nú þegar dómstigin eru orðin þrjú eykst tíminn sem hvert mál getur tekið. Það má líka benda á að hérlendis skiptir það alveg jafn miklu máli og erlendis, að trúnaður ríki um málsmeðferðina og að það sé hægt að kalla til sérhæfða gerðarmenn.“ Nú þegar samningum með gerðardóms-ákvæði fari fjölgandi á Íslandi sé viðbúið að málum sem komi til meðferðar GVÍ fjölgi enn frekar á næstu árum.

Hann bendir á að jafnframt séu tækifæri til staðar fyrir Ísland til að marka sér stöðu sem staður fyrir úrlausn deilumála fyrir gerðardómi í alþjóða viðskiptum. „Þegar íslenskir aðilar eru að standa í samningagerð við erlenda aðila er oft hluti af deilunni milli aðilanna hvaða lög gildi um samninginn og hvar eigi að leysa úr ágreiningsmálum. Báðir aðilar vilja auðvitað að vettvangur ágreinings sé þeirra heimavöllur. Í slíkum tilfellum er oft góð lending að semja um lausn ágreiningsmála fyrir gerðardómi í hlutlausu landi. Ísland, líkt og flest lönd sem við eigum viðskipti við, er aðili að New York sáttmálanum sem tryggir það að niðurstaða gerðardóms er aðfararhæf í þeim löndum sem eiga aðild að sáttmálanum. Aðfararhæfi dóma innan hins almenna dómstólakerfis í ákveðnu landi er ekki endilega tryggt nema í gegnum tvíhliða eða fjölþjóðlega samninga. Þótt Ísland sé aðili að Lugano samningnum sem gildir um aðfararhæfi dóma innan Evrópska efnahagssvæðisins, þarf að fara í gegnum ákveðin formsatriði í löndum utan EES til að tryggja t.a.m. aðfararhæfi dóms sem fellur hérlendis.“

Ísland hefur að mati Baldvins Björns ákveðna möguleika á að marka sér sérstöðu sem öruggt og hlutlaust land fyrir gerðardómsúrlausnir í alþjóðlegum samningum, ekki síst vegna staðsetningar landsins á milli Evrópu og Ameríku, sem og vegna traustra innviða. „Svíþjóð hefur til dæmis tekist mjög vel til með að vera hlutlaus staður til úrlausnar mála fyrir gerðardómi. London hefur einnig tekist vel til með það, auk Parísar þar sem starfandi er Gerðardómur Alþjóðaviðskiptaráðsins (ICC).“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.