Iceland Seafood International (ISI) hefur tilkynnt um að viðræður við virtan aðila í iðnaðinum, sem skrifaði undir viljayfirlýsingu í lok desember um kaup á meirihluta í breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK, hefðu ekki borið árangur.
„Stjórn og framkvæmdastjórn Iceland Seafood mun nú meta valkosti sína og upplýsa um næstu skref ferlisins við hæfi,“ segir í Kauphallartilkynningu sem ISI sendi frá sér eftir lokun markaða.
Stjórn Iceland Seafood International (ISI) tilkynnti um miðjan nóvember að hún hefði ákveðið að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefði gengið erfiðlega á síðustu þremur árum. Félagið fól ráðgjafarfyrirtækinu MAR advisors að leiða söluferlið.
Þetta er í annað skiptið frá því að söluferlið hófst sem ISI hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á breska dótturfélaginu en ekki náð endanlegu samkomulagi við mótaðilann.