Fasteignafélagið Reitir gjaldfærði 56 milljónir króna stjórnunarkostnað á þriðja ársfjórðungi vegna samrunaviðræðna við Eik fasteignafélag. Þetta kemur fram í uppgjöri Reita fyrir þriðja ársfjórðung sem var birt eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Stjórnir Eikar og Reita hófu samrunaviðræður í lok júní, nokkrum dögum eftir að Regin tilkynnti um yfirtökutilboð sitt í Eik. Stjórnir fasteignafélaganna Eikar og Reita tilkynntu þann 1. október sl. um að þær hefðu ákveðið að slíta samrunaviðræðum sínum þar sem þær náðu ekki samkomulagi um skiptihlutföll milli félaganna.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir í afkomutilkynningunni að við undirbúning viðræðna hafi farið fram ítarleg skoðun á rekstri og skipulagi Reita. Hann segir að þessi vinna muni gagnast stjórn og stjórnendum fasteignafélagsins við að skerpa á skipulagi og rekstrarlegum áherslum.
Jafnframt verði umgjörð um hagnýtingu þróunareigna efld og áhersla lögð á að nýta enn betur uppbyggingar- og sölutækifæri sem í þeim felast.
Í fjárfestakynning Reita segist stjórn fasteignafélagsins hafi metið það svo að það væri ekki í þágu hagsmuna hluthafa félagsins að fallast á verulega eftirgjöf í virðismati til þess að af sameiningu yrði.
1,9 milljarða tap á þriðja fjórðungi
Reitir töpuðu 1,9 milljörðum króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 271 milljónar tap á sama tíma í fyrra. Tap félagsins má rekja til þess að matsbreyting fjárfestingareigna var neikvæð um 2,8 milljarða á fjórðungnum en var jákvæð um 453 milljónir á sama tíma í fyrra.
Tekjur fasteignafélagsins námu 3,8 milljörðum króna á þriðja fjórðungi og jukust um 12% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst um 6,5% á milli ára og nam 2,5 milljörðum króna.