Hlutabréf sameinaðs félags JBT Marel Corporation (JBT Marel) verða tekin til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í dag.
Tilkynnt var þann 20. desember síðastliðinn að hluthafar Marels sem eiga 97,5% af útgefnum og útistandandi hlutum í félaginu hefðu samþykkt yfirtökutilboð John Bean Technologies (JBT).
Hluthafar Marels sem samþykktu tilboðið fengu sem endurgjald fyrir hvern hlut í Marel annað hvort reiðufé, hluti í JBT eða blöndu af reiðufé og hluti í JBT
JBT og stjórn Marels tilkynntu í gær að þau hefðu í sameiningu ákveðið að innleysa alla eftirstandandi og útistandandi hluti í Marel sem ekki voru seldir tilboðsgjafa í tilboðinu í samræmi við ákvæði laga um yfirtökur.
Sameinað félag JBT Marel verður með aðalskráningu á bandaríska NYSE hlutabréfamarkaðnum og tvískráð á íslenska aðalmarkaðnum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Chicago en á Íslandi eru starfræktar evrópskar höfuðstöðvar og tækniþróunarsetur.
„Skráning JBT Marel á Íslandi staðfestir vilja okkar til að vera áfram með öfluga starfsemi á Íslandi þar sem við getum áfram notið sérfræðiþekkingar innan félagsins sem og stuðnings frá öflugum hluthöfum,“ segir Brian Deck, forstjóri JBT Marel Corporation, í tilkynningu.
„Við viljum varðveita arfleifð Marel og starfsemina á Íslandi og tryggja samfellu fyrir hluthafa. Við erum ánægð með undirtektir við tilboðinu og viljum færa hluthöfum einlægar þakkir fyrir stuðninginn. Það eru sterk rök fyrir sameiningu félaganna en stuðningur þeirra undirstrikar jafnframt sterka sannfæringu um sameiginlega framtíðarsýn. Við hlökkum til að halda áfram vegferð okkar á íslenska hlutabréfamarkaðnum.“
Marel verið flaggskip Kauphallarinnar
Marel var skráð í íslensku Nasdaq kauphöllina 1992 og hafði því verið skráð á hlutabréfamarkaðinn hér á landi í 32 ár, lengst allra núverandi félaga íslenska markaðarins.
„Við bjóðum JBT Marel Corporation hjartanlega velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland.
„Marel hefur verið flaggskip Kauphallarinnar síðan 1992 og við getum með sanni sagt að við höfum átt í öflugu og árangursríku samstarfi á þessum tíma. Það gleður okkur að JBT Marel hafi ákveðið að halda áfram þessari arfleifð og skrá sameinað félag á íslenska hlutabréfamarkaðinn. Við hlökkum til að halda áfram að styðja við félagið og bjóða því upp á áframhaldandi sýnileika á meðal fjárfesta.“