Bandaríkjadalur hefur verið að veikjast í dag eftir að skoðanakannanir helgarinnar sýndu hnífjafna stöðu milli Kamala Harris og Donald Trump í forsetakosningunum morgund.
Vísitalan sem mælir gengi dals gegn fjölda annarra gjaldmiðla, meðal annars evru, jeni og pundi, féll um 0,53% í morgun sem Financial Times segir að sé mesta lækkun vísitölunnar innan dags síðan í september.
Skoðanakannanir helgarinnar sýndu töluverðan viðsnúning Demókrötum í hag en þar má nefna helst könnun J Ann Selzer í Iowa sem sérfræðingar segja að sé „gullfótur“ skoðanakannana í ríkinu.
Samkvæmt könnun Selzer, sem er óflokksbundin, stefnir í að Kamala Harriss muni hafa betur en Trump í sveifluríkinu.
„Það er viðsnúningur á gengi dalsins vegna könnunarinnar í Iowa,“ segir Ju Wang, yfirmaður gjaldeyrisviðskipta á Asíumörkuðum hjá BNP Paribas.
Wang bendir á að gjaldmiðlar í Asíu hafi verið að styrkjast gegn dalnum í nótt en japanska jenið og renminbi hafa styrkst um 0,8% og 0,5%.
Óvenju öflugar hagtölur sem og vaxandi stuðningur við Donald Trump voru þess valdandi að dalurinn styrktist verulega síðastliðinn mánuð.
Fjárfestar voru sannfærðir um að ef Trump myndi vinna og leggja á fyrirhugaða tolla sína á Evrópulönd og Kína samhliða skattalækkunum myndi verðbólguþrýstingur aukast.
Af þeim sökum myndi hægjast á vaxtalækkunarferli Seðlabankans.
Samkvæmt FT hefur ávöxtunarkrafa tíu ára ríkisskuldabréfa verið samstíga markaðsspám um sigurlíkur Trump.
Skoðanakannanir helgarinnar breyttu þó stöðunni og féll krafan á skuldabréf til tveggja ára um 0,03% á meðan krafan á tíu ára bréfin lækkaði um 0,05%.