Bandaríkja­dalur hefur verið að veikjast í dag eftir að skoðana­kannanir helgarinnar sýndu hníf­jafna stöðu milli Kamala Har­ris og Donald Trump í for­seta­kosningunum morgun­d.

Vísi­talan sem mælir gengi dals gegn fjölda annarra gjald­miðla, meðal annars evru, jeni og pundi, féll um 0,53% í morgun sem Financial Times segir að sé mesta lækkun vísitölunnar innan dags síðan í septem­ber.

Skoðana­kannanir helgarinnar sýndu tölu­verðan viðsnúning Demókrötum í hag en þar má nefna helst könnun J Ann Selzer í Iowa sem sér­fræðingar segja að sé „gull­fótur“ skoðana­kannana í ríkinu.

Sam­kvæmt könnun Selzer, sem er óflokks­bundin, stefnir í að Kamala Har­riss muni hafa betur en Trump í sveifluríkinu.

„Það er viðsnúningur á gengi dalsins vegna könnunarinnar í Iowa,“ segir Ju Wang, yfir­maður gjald­eyris­við­skipta á Asíumörkuðum hjá BNP Pari­bas.

Wang bendir á að gjald­miðlar í Asíu hafi verið að styrkjast gegn dalnum í nótt en japanska jenið og ren­minbi hafa styrkst um 0,8% og 0,5%.

Óvenju öflugar hagtölur sem og vaxandi stuðningur við Donald Trump voru þess valdandi að dalurinn styrktist veru­lega síðastliðinn mánuð.

Fjár­festar voru sann­færðir um að ef Trump myndi vinna og leggja á fyrir­hugaða tolla sína á Evrópulönd og Kína sam­hliða skattalækkunum myndi verðbólguþrýstingur aukast.

Af þeim sökum myndi hægjast á vaxtalækkunar­ferli Seðla­bankans.

Sam­kvæmt FT hefur ávöxtunar­krafa tíu ára ríkis­skulda­bréfa verið sam­stíga markaðs­spám um sigur­líkur Trump.

Skoðana­kannanir helgarinnar breyttu þó stöðunni og féll krafan á skulda­bréf til tveggja ára um 0,03% á meðan krafan á tíu ára bréfin lækkaði um 0,05%.