Gengi S&P 500 vísitölunnar hækkaði um 2,3% í viðskiptum gærdagsins sem er mesta hækkun vísitölunnar á einum degi í rúm tvö ár.
Hlutabréf í Asíu og Bandaríkjunum tóku óvænta dýfu á mánudaginn eftir að töluverður söluþrýstingur myndaðist á mörkuðum.
Atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum eru sagðar hafa spilað einhvern þátt í að hræða fjárfesta í að halda að samdráttur væri yfirvofandi en styrking jensins gagnvart Bandaríkjadal neyddi einnig marga til að losa vaxtamunaviðskipti sín með hraði.
„Við, líkt og margir aðrir í viðskiptaheiminum, erum afar hissa á viðkvæmni markaðarins, „segir Kevin Khang, hagfræðingur hjá Vanguard, um gengishrunið á mánudaginn, í samtali við The Wall Street Journal.
„Það voru engar stórvægilegar breytingar á undirstöðum hagkerfisins,“ bætir Khang við.
Markaðurinn hefur síðan á mánudaginn hægt og rólega verið að rétta sig af en eftir viðskipti gærdagsins svipar allt til stöðunnar fyrir gengishrunið.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára, sem tók væna dýfu á mánudaginn, er komin aftur í um 4%.
Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, hækkaði um 2,9% í gær á meðan Dow Jones bætti við sig um 700 stigum og lokaði 1,8% hærra.
S&P 500 vísitalan var um 0,5% frá gengi fimmtudagsins í síðustu viku.
VIX-vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta, lokaði í um 24 stigum
Vísitalan fór í um 65 stig um stund á mánudaginn en lokaði í 37 stigum. Til samanburðar stóð hún yfir 80 stigum er Covid-faraldurinn náði hámarki haustið 2020.