Hagnaður Kviku banka fyrir skatta nam 1,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi sem er hækkun um tæplega 1,6 milljarða á milli ára er hagnaðurinn nam 234 milljónum króna á sama tímabili í fyrra.
Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku segir að mikill viðsnúningur sé í hreinum fjárfestingatekjum, að mestu leyti vegna þess að fjárfestingar bankans á Íslandi og í Bretlandi í fjórðungnum, spili stórt hlutverk.
Hagnaður samstæðunnar í heild eftir skatta nam tæplega 2,4 milljörðum á fjórðungnum, samanborið við 544 milljónir í fyrra sem samsvarar um 1,8 milljarða króna aukningu.
Hreinar þóknanatekjur Kviku voru 1,5 milljarðar á fjórðungnum og voru 17% meiri en í fyrra.
„Það er afar ánægjulegt að sjá þann mikla viðsnúning sem verið hefur á rekstri bankans að undanförnu og endurspeglast í uppgjöri þriðja ársfjórðungs. Bankinn er að ná arðsemismarkmiðum sínum af áframhaldandi rekstri en hagnaður fyrir skatta í fjórðungnum margfaldaðist milli ára og nam 1.813 m.kr., sem nemur 22,4% arðsemi efnislegs eiginfjár fyrir skatta,” segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku.
Kvika tekur fram að afkoma eigna haldið til sölu eftir skatta, sem samanstanda eingöngu af rekstri dótturfélagsins TM, sé samandregin í einni línu í rekstrarreikningi og nam 965 milljónum króna á þriðja fjórðungi.
Hreinar vaxtatekjur námu 2,4 milljörðum á fjórðungnum samanborið við rúmlega 1,8 milljarða á þriðja fjórðungi í fyrra og hækkuðu því um 31% frá fyrra ári.
„Mikill vöxtur er í öllum tekjuliðum milli ára. Vöxtur í lánabók og aukning vaxtamunar skiluðu tæplega 600 m.kr. aukningu í vaxtatekjum milli ára. Þá var mikill viðsnúningur í hreinum fjárfestingatekjum sem voru rúmlega 400 m.kr. á fjórðungnum en voru neikvæðar á sama tímabili í fyrra en viðsnúningur fjárfestingartekna skýrist að mestu af því að eiginfjárfestingar bankans á Íslandi og í Bretlandi gengu vel í fjórðungnum. Þóknanatekjur vaxa um 17% á milli ára sem má helst rekja til aukinna umsvifa Straums og aukinna útlánaþóknana,” segir Ármann.
Hagnaður næstum tvöfaldaður
Sé litið á fyrstu níu mánuði ársins var hagnaður Kviku banka samstæðunnar í heild 4,7 milljarðar króna sem er næstum tvöfalt meiri hagnaður en á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 er Kvika skilaði 2,45 milljarða hagnaði.
Hreinar vaxtatekjur bankans námu 7,2 milljörðum sem er um 26% hækkun á milli ára en vaxtamunur var 3,9% á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.
Hreinar þóknanatekjur námu 4,5 milljörðum sem er um 5% hækkun á milli ára á meðan aðrar rekstrartekjur drógust örlítið saman og fóru úr 821 milljón í 800 milljónir.
Rekstrarkostnaður nam 7,7 milljörðum króna og lækkar um 3%.
„Árangur bankans þegar kemur að kostnaði hefur verið einstaklega góður síðastliðið ár og erfiðar aðhaldsaðgerðir hafa skilað miklum árangri. Rekstrarkostnaður í fjórðungnum lækkaði um nærri 300 milljónir króna samanborið við sama fjórðung í fyrra sem verður að teljast frábær árangur í umhverfi mikillar verðbólgu og launahækkana,” segir Ármann.
Ármann bætir við að eiginfjárstaða bankans sé sterk og hefur lausafjárhlutfall hans sjaldan verið hærra.
Meginmælikvarði lausafjárhættu til skemmri tíma er lausafjárþekjuhlutfall (LCR) en samkvæmt reglum Seðlabankans skal heildarlausafjárþekja vera að lágmarki 100% en 80% lausafjárþekja fyrir evru og 50% fyrir íslenskar krónur.
Heildarlausafjárþekjuhlutfall Kviku banka samstæðunnar var 780% við lok þriðja ársfjórðungs, samanborið við 247% í lok árs 2023.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 23,5%, samanborið við 22,6% í lok árs 2023 og var gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar 1,24 í lok tímabilsins.
Heildareignir Kviku voru bókfærðar á 364 milljarða í lok fjórðungsins, samanborið við 335 milljarða í lok árs 2023.
Eigið fé samstæðunnar var 86 milljarðar króna í lok tímabilsins sem er um fjögurra milljarða króna hækkun.
„Allar viðskiptaeiningar eru að skila afkomu um eða yfir áætlunum félagsins og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann viðsnúning sem verið hefur á starfsemi félagsins í Bretlandi,” segir Ármann.