Hagnaður Kviku banka fyrir skatta nam 1,8 milljörðum króna á þriðja árs­fjórðungi sem er hækkun um tæp­lega 1,6 milljarða á milli ára er hagnaðurinn nam 234 milljónum króna á sama tíma­bili í fyrra.

Ár­mann Þor­valds­son for­stjóri Kviku segir að mikill viðsnúningur sé í hreinum fjár­festinga­tekjum, að mestu leyti vegna þess að fjár­festingar bankans á Ís­landi og í Bret­landi í fjórðungnum, spili stórt hlut­verk.

Hagnaður sam­stæðunnar í heild eftir skatta nam tæp­lega 2,4 milljörðum á fjórðungnum, saman­borið við 544 milljónir í fyrra sem sam­svarar um 1,8 milljarða króna aukningu.

Hreinar þóknana­tekjur Kviku voru 1,5 milljarðar á fjórðungnum og voru 17% meiri en í fyrra.

„Það er afar ánægju­legt að sjá þann mikla viðsnúning sem verið hefur á rekstri bankans að undan­förnu og endur­speglast í upp­gjöri þriðja árs­fjórðungs. Bankinn er að ná arð­semis­mark­miðum sínum af áfram­haldandi rekstri en hagnaður fyrir skatta í fjórðungnum marg­faldaðist milli ára og nam 1.813 m.kr., sem nemur 22,4% arð­semi efnis­legs eigin­fjár fyrir skatta,” segir Ár­mann Þor­valds­son, for­stjóri Kviku.

Kvika tekur fram að af­koma eigna haldið til sölu eftir skatta, sem saman­standa ein­göngu af rekstri dóttur­félagsins TM, sé saman­dregin í einni línu í rekstrar­reikningi og nam 965 milljónum króna á þriðja fjórðungi.

Hreinar vaxta­tekjur námu 2,4 milljörðum á fjórðungnum saman­borið við rúm­lega 1,8 milljarða á þriðja fjórðungi í fyrra og hækkuðu því um 31% frá fyrra ári.

„Mikill vöxtur er í öllum tekjuliðum milli ára. Vöxtur í lána­bók og aukning vaxta­munar skiluðu tæp­lega 600 m.kr. aukningu í vaxta­tekjum milli ára. Þá var mikill viðsnúningur í hreinum fjár­festinga­tekjum sem voru rúm­lega 400 m.kr. á fjórðungnum en voru neikvæðar á sama tíma­bili í fyrra en viðsnúningur fjár­festingar­tekna skýrist að mestu af því að eigin­fjár­festingar bankans á Ís­landi og í Bret­landi gengu vel í fjórðungnum. Þóknana­tekjur vaxa um 17% á milli ára sem má helst rekja til aukinna um­svifa Straums og aukinna útlánaþóknana,” segir Ár­mann.

Hagnaður næstum tvöfaldaður

Sé litið á fyrstu níu mánuði ársins var hagnaður Kviku banka sam­stæðunnar í heild 4,7 milljarðar króna sem er næstum tvöfalt meiri hagnaður en á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 er Kvika skilaði 2,45 milljarða hagnaði.

Hreinar vaxta­tekjur bankans námu 7,2 milljörðum sem er um 26% hækkun á milli ára en vaxta­munur var 3,9% á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.

Hreinar þóknana­tekjur námu 4,5 milljörðum sem er um 5% hækkun á milli ára á meðan aðrar rekstrar­tekjur drógust ör­lítið saman og fóru úr 821 milljón í 800 milljónir.

Rekstrar­kostnaður nam 7,7 milljörðum króna og lækkar um 3%.

„Árangur bankans þegar kemur að kostnaði hefur verið ein­stak­lega góður síðastliðið ár og erfiðar aðhaldsað­gerðir hafa skilað miklum árangri. Rekstrar­kostnaður í fjórðungnum lækkaði um nærri 300 milljónir króna saman­borið við sama fjórðung í fyrra sem verður að teljast frábær árangur í um­hverfi mikillar verðbólgu og launa­hækkana,” segir Ár­mann.

Ár­mann bætir við að eigin­fjár­staða bankans sé sterk og hefur lausa­fjár­hlut­fall hans sjaldan verið hærra.

Meginmælikvarði lausafjárhættu til skemmri tíma er lausafjárþekjuhlutfall (LCR) en samkvæmt reglum Seðlabankans skal heildarlausafjárþekja vera að lágmarki 100% en 80% lausafjárþekja fyrir evru og 50% fyrir íslenskar krónur.

Heildarlausafjárþekjuhlutfall Kviku banka samstæðunnar var 780% við lok þriðja ársfjórðungs, samanborið við 247% í lok árs 2023.

Eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 23,5%, samanborið við 22,6% í lok árs 2023 og var gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar 1,24 í lok tímabilsins.

Heildareignir Kviku voru bókfærðar á 364 milljarða í lok fjórðungsins, samanborið við 335 milljarða í lok árs 2023.

Eigið fé samstæðunnar var 86 milljarðar króna í lok tímabilsins sem er um fjögurra milljarða króna hækkun.

„Allar viðskiptaeiningar eru að skila afkomu um eða yfir áætlunum félagsins og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann viðsnúning sem verið hefur á starfsemi félagsins í Bretlandi,” segir Ármann.