Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson, eða Gamla bókabúðin á Flateyri eins og verslunin er einnig kölluð, hóf rekstur í byrjun síðustu aldar. Elstu bókhaldsgögn ná aftur til ársins 1914 og fagnar verslunin því 110 ára afmæli í ár.

Fyrir tíu árum síðan tók Eyþór Jóvinsson, barnabarnabarn Jóns Eyjólfssonar, eins stofnanda verslunarinnar, við rekstrinum en hann lýsir því að um síðustu aldamót hafi útlitið verið dapurt.

„Þá var þetta í rauninni bara orðið að safni og svona fornbúðarsölu, árstekjurnar dugðu ekki einu sinni til þess að halda húsinu heitu og þetta leit ekkert allt of vel út. Þá í rauninni býðst ég til að stíga inn í þetta og sjá hvað ég gæti gert,“ segir Eyþór.

Eftir að hann tók við byrjaði hann að vinna meira með það að um sé að ræða gamla verslun en ekki safn um gamla verslun, sem gjörbreytti stöðunni.

Verslunin á Flateyri er elsta starfandi verslun Íslands.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Með árunum jukust vinsældir verslunarinnar, ekki síst með auknum ferðamannastraumi og á dögunum var ný verslun opnuð í Reykjavík.

„Á þessum tíu árum höfum við farið úr litlu safni sem gat ekki borgað rafmagnsreikninginn í það að vera með tvær verslanir og það gengur mjög vel,“ segir Eyþór en útlit er fyrir að velta síðasta árs hafi verið hátt í hundrað milljónir króna.

„Með því að vinna meira með það, þessa löngu sögu og hefð fjölskyldunnar, þá vorum við búin að búa til eitthvað sérstakt sem enginn annar gat boðið upp á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.