Alvarlega var til skoðunar að skrá lyfjatæknisprotann Oculis á markað í Hong Kong í stað Nasdaq í Bandaríkjunum, eins og tilkynnt var að samið hefði verið um með samruna við SPAC-félag fyrr í vikunni.
Meðal fjárfesta sem komu inn í hluthafahóp Oculis í 60 milljóna dala fjármögnunarlotu í fyrra var kínverski sjóðurinn BVCF sem keypti um 12% hlut og varð þar með annar stærstu einstöku hluthafanna til jafns við Brunn ventures. Þegar ný stjórn ákvað að reyna að koma fyrirtækinu á markað kom óhjákvæmilega upp umræða um hvert.
„Það tók sinn tíma að rökræða þetta innan stjórnarinnar. Við höfðum fengið þarna sterka kínverska sjóði inn sem höfðu mikla reynslu af skráningu á markað í Hong Kong. Það var því mikil umræða um það hvort við ættum að stefna þangað með Oculis enda góð og gild rök fyrir því að þar gæti verðmæti félagsins orðið enn meira. Þetta er jú risavaxinn markaður og félög hafa gjarnan verið verðlögð hærra þar en til dæmis í Bandaríkjunum,“ segir Árni Blöndal annar stofnenda Brunns.
Ekkert varð hins vegar úr þeim hugmyndum þar sem ástandið í faraldrinum og mikill pólitískur óstöðugleiki í Hong Kong gerði það að verkum að svo til útilokað var talið að hægt yrði að skrá þar.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.