Viljhjálmur Vilhjálmsson fráfarandi forstjóri HB Granda hefur birt yfirlýsingu vegna forstjóraskiptana á vef HB Granda þar sem hann segist ekki ætla að tjá sig um starfslok sín. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá hefur Guðmundur Kristjánsson sem áður var forstjóri Brim tekið við forstjórastarfinu ásamt því að sitja áfram í stjórn félagsins.

Eftir að Brim keypti hlut fyrirtækja að mestu í eigu Kristjáns Loftssonar í HB Granda gerðist Guðmundur fyrst í stað stjórnarformaður félagsins, en Rannveig Rist, sem síðan hefur sagt sig úr stjórninni, var varaformaður stjórnar.

Hér má lesa yfirlýsingu Vilhjálms í heild sinni:

Ég hef ákveðið að tjá mig ekki um forstjóraskipti og starfslok mín hjá HB Granda. Það hefur verið gengið frá starfslokum mínum hjá félaginu og því nauðsynlegt að horfa fram á veginn. Mig langar þó að taka eftirfarandi fram:

Þó ég hafi haft fullan hug á að starfa áfram hjá HB Granda kveð ég starfið með miklu þakklæti. Það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í og vinna að þeim mikilvægu breytingum sem félagið hefur gengið í gegnum á undanförnum árum.

Mína vegferð innan félagsins má rekja 18 ár aftur í tímann til ársins 2000 þegar ég var ráðinn sem skrifstofustjóri hjá Tanga hf. á Vopnafirði sem síðar sameinaðist HB Granda hf. Síðan þá hef ég tekið þátt í uppbyggingu félagsins í gegnum miklar breytingar, hæðir og lægðir.

Á þessum tímamótum eru mér efst í huga þau forréttindi að hafa fengið að vinna með því frábæra fólki sem ég hef kynnst í starfi mínu innan félagsins og utan. Með ofangreint í huga kveð ég starfið fullur þakklætis og óska starfsfólki HB Granda og félaginu sjálfu alls hins besta.