Allir átta þingmenn Vinstri grænna eru andvígir því að heimila smásölu einkaaðila á áfengi á netinu og segjast ánægðir með það fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði með sérleyfi ÁTVR, samkvæmt niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins.

Viðskiptablaðið sendi eftirfarandi fyrirspurn á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“ Jafnframt var spurt um afstöðu til núverandi fyrirkomulags áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR.

Svör þingmanna VG eru samhljóma og má því fastlega gera ráð fyrir að þeir muni ekki styðja fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um að heimila innlendar vefverslanir með áfengi.

Bjarni Jónsson segist í skriflegu svari vera andvígur því að heimila innlendum sem erlendum aðilum að stunda smásölu á áfengi á Íslandi. Hann sé sáttur við núverandi fyrirkomulag áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR „en bæta má þjónustuna á landsbyggðinni“.

Eva Dögg Davíðsdóttir segist telja best að ÁTVR verði áfram með einkaleyfi á allri sölu á áfengi. Sú afstaða byggist á lýðheilsusjónarmiðum „og tekjum fyrir ríkiskassann“.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra og varaformaður VG, sagði í grein á Vísi í vor - í tilefni þess að Hagkaup boðaði opnun vefverslunar með áfengi – að „ÁTVR dugi“ hvað aðgengi að áfengi varðar. Hann varaði við því að lögfesta heimild til reksturs innlendra vefverslana á þessu sviði en með því myndi aðgengi stóraukast að hans mati og „markaðsöflin fá lausan tauminn til að koma sem mestu áfengi út til neytenda“.

Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.