Fulltrúar Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, og Menntaskólans á Ásbrú, MÁ, undirrituðu í gær í Húsi atvinnulífsins samstarfssamning í því skyni að efla samstarf á milli atvinnulífs og menntastofnana í tölvuleikjagerð.
Tilgangur samningsins er að styrkja núverandi samstarf milli tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi og Menntaskólans á Ásbrú, en skólinn býður nemendum að stunda nám við tölvuleikjagerð.
„Tölvuleikjaiðnaður á Íslandi hefur verið í miklum blóma undanfarin ár og telur starfsfólk í iðnaðinum í dag á sjötta hundrað. Mikil vaxtatækifæri eru fyrir hendi í iðnaðinum en forsendan fyrir því að þau tækifæri raungerist er aukið framboð af hæfu starfsfólki,“ segir Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda.
Í tilkynningu segir einnig að helsta markmið samningsins sé að veita MÁ fyrirsjáanleika í námsframboði og tengingu inn í atvinnulífið að því marki að bæta megi sértækt nám til tölvuleikjagerðar enn frekar.
„MÁ hefur boðið upp á nám í tölvuleikjagerð síðan haustið 2018 en námið er nýstárlegt. Við leggjum, auk hefðbundinna námsgreina, sérstaka áherslu á sköpun, hugmyndaauðgi, forritun og verkefnastjórn, auk þess sem nemendur læra að fylgja eftir þróun tölvuleiks frá hugmynd að veruleika,“ segir Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú.