Langisjór, sem nýverið gerði yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar, hefur í hyggju að straumlínulaga eignasafn félagsins, eftir atvikum með sölu eigna, í því skyni að ná fram betri heildararðsemi fjárfestingasafnsins.
Andvirði slíkra eigna verður nýtt til arðgreiðslu til hluthafa eða endurkaupa á eigin hlutum en Langisjór leggur til að Eik verði eftirleiðis arðgreiðslufélag sem greiði hluthöfum árlega arðgreiðslu sem samsvarar að jafnaði ekki lægra hlutfalli en 75% af handbæru fé frá rekstri næstliðins árs.
Samkvæmt áætlunum félagsins verður stefnt að því að auka skuldsetningu til að auka arðsemi eigin fjár félagsins án þess þó að stefna fjárhagslegum stöðugleika þess í hættu.
Langisjór leggur einnig til að hlé verði gert á frekari uppbyggingu Eikar á safni atvinnueigna og að könnuð verði kostgæfni þess að Eik sinni uppbyggingu og útleigu íbúðarhúsnæðis til almennings að norrænni fyrirmynd.
Félagið vill einnig að áherslum í fasteignaþróunarverkefnum Eikar verði breytt á þann veg að félagið einbeiti sér eingöngu að þróun fasteignaverkefna til endursölu í aðdraganda byggingarframkvæmda. Langisjór telur einnig nauðsynlegt að endurskoða rekstur Eikar til að auka ráðdeild og arðsemi rekstrarins.
Langisjór keypti í lok ágúst um sex milljón hluti í Eik ásamt því að taka við 442 milljón hlutum af dótturfélagi sínu Brimgörðum. Tilboðsskylda myndaðist í kjölfarið en félagið mun senda hluthöfum og Kauphöllinni tilboðsyfirlit á föstudaginn.
Samkvæmt tilboðinu býður Langisjór hluthöfum 11 krónur á hlut sem greiðast með reiðufé. Dagslokagengi Eikar á föstudaginn var 10,9 krónur en gengið hefur verið á bilinu 9 til 10 krónur síðastliðna sex mánuði en rauk upp í 11 um miðjan ágúst.
Langisjór er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.
Eignir Langasjós námu 110 milljörðum króna í árslok 2022 samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Eigið fé Langasjós var um 27,6 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 25%.
Langisjór á meðal annars leigufélagið Ölmu, Mata og sælgætisgerðina Freyju.
Gildistími yfirtökutilboðsins er fjórar vikur og hefst á föstudaginn. Hluthafar hafa því til hádegis þann 18. október til að svara.