Saksóknarar í Namibíu munu fara fram á það við íslenska ríkið að þrír íslenskir sakborningar í Fishrot-málunum þar syðra verði framseldir til ríkisins. Ákærur í málunum hafa ekki verið birtar þeim með lögformlegum hætti. Íslensk lög heimila ekki að íslensir ríkisborgarar séu framseldir héðan.

Fishrot-málið hefur gengið undir nafninu Samherja-málið hér heima en það fjallar um meintar mútugreiðslur dótturfélaga Samherja og starfsmanna þeirra til ráðamanna í Namibíu. Átta heimamenn og ellefu félög þeim tengd eru ákærð í málinu ytra auk þriggja Íslendinga og fimm félaga í þeirra eigu.

Fyrirtaka var í málinu í Windhoek, höfuðborg Namibíu, í gær. Þar voru átta sakborningar af ellefu mættir en sakaðir heimamenn hafa verið í gæsluvarðhaldi undanfarna mánuði. Dómari málsins spurðist fyrir um hvar Íslendingarnir þrír væru þar sem þeir voru ekki mættir í dómsalinn. Kom þá fram í máli sóknarinnar að ákæra hefði ekki verið birt þeim með lögformlegum hætti. Takist ekki að birta ákæru með réttum hætti fellur málið gegn þeim um sjálft sig. Takist birting aftur á móti er sennilegt að dómur verði kveðinn upp að þeim fjarstöddum.

Namibíska ríkið hygðist hins vegar fara þess á leit við íslenska ríkið að fá aðstoð við að birta ákærurnar og að þremenningarnir verði framseldir til Namibíu. Íslensk lög, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, banna það aftur á móti að íslenskir ríkisborgarar séu framseldir frá Íslandi til annarra ríkja.

Samkvæmt frásögn The Namibian fór stærstur hluti fyrirtökunnar í gær í að karpa um hvort þinghald ætti að vera opið eður ei þegar vitni sóknarinnar gæfu skýrslu. Taldi saksóknari að slíkt gæti spillt fyrir málarekstrinum. Dómari féllst á röksemdir þess efnis, gegn andmælum ákærðu, og verður þinghald lokað á meðan.

Næsta fyrirtaka í málinu er áætluð 20. maí næstkomandi og standa vonir saksóknara til þess að íslenskir sakborningar málsins verði þá í réttarsalnum.