Samkeppniseftirlit bandaríska dómsmálaráðuneytisins hefur ákveðið að biðja dómstól um að þvinga Google til að selja vefvafrann Chrome. Dómstóllinn úrskurðaði í ágúst að Google viðheldi ólöglegri einokun á markaðnum.
Bloomberg greindi fyrst frá en málið á sér hins vegar langa forsögu.
Málið hófst undir fyrstu ríkisstjórn Donalds Trumps en hefur haldið áfram í gegnum ríkisstjórn Joe Biden. Ef alríkisdómarinn í málinu samþykkir beiðnina myndi það marka ákveðin kaflaskipti hjá Alphabet Inc., einu stærsta tæknifyrirtæki heims.
Vefvafri Google er einn sá vinsælasti í heiminum og hefur þjónað stóru hlutverki í að miðla auglýsingum til notenda. Fyrirtækið getur einnig fylgst með innskráðum notendum og notar þá Chrome til að beina notendum að gervigreindarforriti sínu, Gemini.
„Dómsmálaráðuneytið heldur áfram að ýta á eftir þessari róttæku áætlun sem nær langt út fyrir lagalegan ramma í þessu máli. Þessar aðgerðir stjórnvalda munu skaða neytendur, þróunaraðila og bandaríska tækniforystu á tímum þegar mikil þörf er á henni,“ segir Lee-Anne Mulholland, framkvæmdastjóri Google.
Deilur milli bandarísku ríkisstjórnarinnar og tæknifyrirtækja eru þó ekki nýjar af nálinni en stjórnvöld í Washington reyndu fyrir rúmum tveimur áratugum að leysa upp Microsoft af sömu ástæðu.