Ríkisstjórnin hefur slegið nýtt olíuleitarútboð útaf borðinu. Eins og Viðskiptblaðið hefur greint frá þá er talið á að Drekasvæðinu séu um 10 milljarðar tunna, sem þýðir að þar er mögulega stærsta olíu- og gaslind í Norður-Atlantshafi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að flokkurinn leggi ríka áherslu á orkuskipti og líti svo á að það eigi að vera forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda að hraða þeirri vegferð.
„Skilvirk orkuskipti eru bæði nauðsynleg og skynsamleg, vegna loftslagsmarkmiða og til að efla sjálfbærni Íslendinga í orkuframleiðslu,“ segir Sigurður Ingi. „Þá er brýnt efnahagsmál að við Íslendingar framleiðum eigin orkugjafa en séum í minna mæli háð innflutningi í þeim efnum."
„Þrátt fyrir þessa skýru afstöðu til orkuskipta, er jafnframt mikilvægt að byggja ákvarðanir á raunsæi og að staða alþjóðamála sé tekin með í reikninginn," segir Sigurður Ingi. „Framsókn telur að ekki eigi að útiloka að teknar verði ákvarðanir um olíuleit í framtíðinni – ef aðstæður kalli á það og það þjóni þjóðarhagsmunum."
„Ákvörðun um slíkt þyrfti þó að taka grunni víðtækrar greiningar og í ljósi umhverfislegra, efnahagslegra og alþjóðlegra sjónarmiða," segir Sigurður Ingi. „Hún myndi jafnframt krefjast ábyrgrar útfærslu, byggja á grunni víðtækrar samfélagsumræðu og hafa í för með sér óumdeilanlegan ávinning fyrir íslenskt samfélag.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.