Eigendur Hellisheiðarvirkjunar, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð fengu fyrr í mánuðinum tilboð í eignarhluti sína í virkjuninni frá einkahlutafélaginu MJDB.
Um miðjan desember hafnaði Orkuveita Reykjavíkur tilboði sama félags í virkjunina í annað sinn. Félagið er að 70% í eigu Magnúsar B. Jóhannessonar, framkvæmdastjóra hjá America Renewables í Kaliforníu að því er fram kemur á Vísi í dag .
Lögmannsstofan Lagahvoll er skráður eigandi 30% hlutar í félaginu. Félagið American Renewables var stofnað árið 2009 í borginni Rolling Hills í Kaliforníu en það hefur komið að ýmsum verkefnum sem tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum.
Bókfært virði 107 milljarðar
Dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, Orka Náttúrunnar er eigandi Hellisheiðarvirkjunar, en eigendur OR eru Reykjavíkurborg sem á 93,54%, Akraneskaupstaður á 5,53% og Borgarbyggð 0,93%.
Ekki hefur farið fram verðmat á virkjuninni en bókfært virði virkjana ON var um 950 milljónir Bandaríkjadala eða um 107 milljarðar íslenskra króna í lok árs 2015.
Stærsti hluti þeirrar upphæðar er talið liggja í Hellisheiðarvirkjun enda hefur Nesjavallavirkjun verið afskrifuð að verulegu leyti og Andakílsvirkjun er í eldra lagi.