ÁTVR leitar nú að 600-800 fermetra leiguhúsnæði fyrir Vínbúð á Akureyri til allt að 10 ára. Í útboðslýsingu eru tilgreindar 11 kröfur um staðsetningu, aðgengi og fleira, meðal annars að húsnæðið liggi vel við öllum samgöngumátum og bjóði upp á 50-60 bílastæði.
Forsvarsmenn ÁTVR vildu lítið gefa upp um framtíðaráform og sögðu ekkert hafa verið ákveðið, en heimildir blaðsins herma að verslun Vínbúðarinnar í bænum sé orðin of lítil fyrir starfsemina.
Yfir 60 ára saga í húsinu sem hófst á afnámi sölubanns í bænum
Vínbúðin á Akureyri er til húsa við Hólabraut 16 í dag og hefur verið þar samfellt í yfir 60 ár, eða frá því í maí 1961 þegar Áfengisverslun ríkisins keypti húsnæðið af sælgætisgerðinni Lindu.
Ný Vínbúð hafði þá verið opnuð í bænum aðeins fjórum árum fyrr eftir að bæjarbúar samþykktu að heimila slíka starfsemi á ný í almennri atkvæðagreiðslu. Sala áfengis hafði verið bönnuð með sama hætti aðeins tveimur árum fyrr og versluninni sem fyrir var því lokað þegar bærinn varð „þurr“ eins og sagt var.
Áður verið leitað án árangurs
ÁTVR hefur oftar en einu sinni áður auglýst eftir nýju leiguhúsnæði fyrir Vínbúð bæjarins, síðast árið 2009 en einnig aðeins þremur árum fyrr. Niðurstaðan á þeim tíma varð hins vegar sú að „ekki náist fram það hagræði sem stefnt var að og því [hafi] verið ákveðið að hafna öllum tilboðum“.
Tveimur árum síðar var svo ráðist í breytingar á húsnæðinu við Hólabraut og söluúrvalið meðal annars aukið um þriðjung.
Tilboðsfrestur er til hádegis 29. september og niðurstöðu um örlög þessarar sögulegu staðsetningar Vínbúðarinnar því væntanlega ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði.