Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, telur það óhagstætt fyrir ferðaþjónustuna hvernig réttindi og skyldur hafa verið túlkaðar á íslenskum vinnumarkaði. Uppfæra þurfi íslenska vinnumarkaðsmódelið til samræmis við þróun hagkerfisins og til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Nefnir hann dagvinnu og yfirvinnu sem dæmi, en það er algengt innan ferðaþjónustunnar að fólk þurfi að vera í vinnunni á öllum tímum sólarhringsins, enda séu ferðamenn ekki bara hér frá átta á morgnanna til fjögur í eftirmiðdaginn. Þetta eigi til að mynda við um hótelrekstur og veitingaþjónustu, en sú þjónusta fari mikið fram utan hefðbundins dagvinnutíma.

„Þegar þessir vinnustaðir eru að laða til sín í hlutastörf ungt fólk í námi, þá kemur það yfirleitt inn á yfirvinnutíma þó það sé að vinna fyrsta klukkutímann sinn í vikunni,“ sagði Bjarni á Ferðaþjónustudeginum sem Samtök ferðaþjónustunnar stóðu fyrir í gær.

Tilefni til sóknar í verðmætasköpun

Í pallborðsumræðum ásamt Bjarna hafði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri orð á því að ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni í verðbólgunni væri Ísland með aðra lægstu verðbólguna í Evrópu. Hann telur því að þrátt fyrir verðbólguna muni greinin halda samkeppnishæfni.

Þá sagðist hann horfa sömu augum á ferðaþjónustuna í dag eins og á sjávarútveginn eftir hrun þorskstofnsins undir lok tíunda áratugarins. „Það var erfið áraun fyrir sjávarútveginn, en varð tilefni til hagræðingar og gríðarlegrar sóknar í verðmætasköpun. Einhverjir hafa núna stigið út úr ferðaþjónustunni, en ég tel að sá hópur sem eftir stendur sé harðkjarna í því sem hann ætlar að gera,“ sagði Ásgeir.

Hann nefndi að þrátt fyrr miklar hreyfingar á öðrum gjaldmiðlum hafi gengi krónunnar haldist tiltölulega stöðugt og er hann bjartsýnn á að við munum ná að halda stöðugleika. „Þó verðbólgan sé um 9% þá er raungengið ekki að hækka. Það er vegna þess að allar þjóðirnar í kring eru með svipað mikla verðbólgu, sem er nýtt.“

Ásgeir telur að gengi krónunnar væri líklega 10-15% lægra ef ferðaþjónustan væri ekki svona stór. Í dag sé Ísland með vöruskiptahalla samferða afgangi á þjónustuviðskiptum við útlönd og í því samhengi megi ganga út frá því að ferðaþjónustan hafi bætt lífskjör í landinu.

„Það sem hefur skipt mestu máli fyrir okkur sem lítið hagkerfi er fólksfjölgunin, það er ábati í ljósi þess að stærðarhagkvæmni er okkar helsta vandamál. Skattkerfið okkar er að miklu leyti byggt á óbeinum sköttum – neyslusköttum, sem fela það í sér að þegar ferðamenn koma og versla hérna þá eru þeir meðal annars að greiða virðisaukaskatt, áfengisgjald og bensíngjald. Óbeina skattkerfið er miðað inn á þessa notendur sem er að einhverju leyti jákvætt.“