Breskir söluaðilar seldu rúmlega 10 milljón færri vínflöskur yfir síðustu jól miðað við hátíðirnar árið á undan.

Sala á sterku víni dróst einnig saman um 7,1% síðustu 12 vikur fyrir jólin samkvæmt tölum frá Wine & Spirit Trade Association. Það jafngildir 7,7 milljónum færri flöskum af sterku víni en bjórsala hefur þá einnig dregist saman.

Eigendur brugg- og eimingarverksmiðja hafa kennt skattahækkunum um en breska ríkisstjórnin ákvað að hækka áfengisskatta síðasta ágúst. Neytendur þurfa nú að greiða 20% aukalega fyrir vínflöskur og 10% meira fyrir sterkt vín.

Neytendur hafa ofan á það glímt við verðbólgu undanfarin misseri og hafa brugðist með breyttum neysluvenjum, sem hefur oftar en ekki í för með sér færri tilefni til að lyfta glösum og skála.

Ákvörðun stjórnvalda virðist einnig hafa komið í bakið á þeim þar sem nýjustu tölur sýna að skatttekjur af vínsölu hafi lækkað um 436 milljónir punda milli september 2023 og janúar 2024. Þegar bjórnum er bætt er heildartapið um 600 milljónir punda sem hefði endað í ríkiskassann.