Tryggingafélagið VÍS tapaði 70 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 2,2 milljarða hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins.
Tekjur VÍS á fjórðungnum námu 6.436 milljónum króna samanborið við 7.764 milljónir á sama tíma í fyrra. Þar af námu iðgjöld 6.286 milljónum króna. Hagnaður af vátryggingarekstri var 157 milljónir á nýliðnum fjórðungi, en hagnaðurinn nam 628 milljónum á sama tíma í fyrra.
Tekjur VÍS af fjárfestingarstarfsemi drógust verulega saman á milli ára, fóru úr 2 milljörðum í 335 milljónir á nýliðnum ársfjórðungi, en markaðsaðstæður voru afar krefjandi á fjórðungnum. Þannig segir í uppgjöri félagsins að skuldabréf jafnt sem hlutabréf hafi lækkað almennt í virði.
„Ríkisskuldabréf og skuldabréf sveitarfélaga skiluðu neikvæðri ávöxtun á meðan önnur skuldabréf skiluðu um 283 milljónum króna. Skráð hlutabréf lækkuðu um 2,8% eða um 270 milljónir en óskráð hlutabréf hækkuðu um 247 milljónir í fjórðungum - þar vegur Controlant þyngst, eða um 100 milljóna hækkun.“
Samsett hlutfall fjórðungsins 99,6% en var 90,5% á sama tíma í fyrra. Áhrif breyttra verðbólguvæntinga Seðlabankans á fyrstu níu mánuðum ársins á samsett hlutfall félagsins er metið til þriggja prósenta hækkunar á ársgrundvelli. Auk þess var þriðji ársfjórðungur tjónaþyngri en gert var ráð fyrir.
„Þetta leiðir til þess að nú er áætlað að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 98-100%,“ segir í uppgjörinu.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:
„Uppgjörið litast af sveiflum á mörkuðum auk þess sem september var tjónaþyngri en gert var ráð fyrir – og því uppfærðum við horfur ársins. Á móti kemur að þrátt fyrir erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum voru fjárfestingartekjur fjórðungsins jákvæðar. Samsett hlutfall tímabilsins var 99,6% en var 90,5% á sama tíma í fyrra. Við metum áhrif hækkunar verðbólguspár Seðlabanka Íslands á samsett hlutfall fyrstu níu mánuði ársins til þriggja prósenta hækkunar á ársgrundvelli.“