Afleiðingar hruns íslensku viðskiptabankanna í október 2008 koma nú æ betur í ljós. Fjöldi fyrirtækja hefur þegar lent í verulegum rekstrarvandræðum. Ríflega helmingur þátttakenda í könnun Viðskiptaráðs, sem nú hefur verið gerð opinber, telur að rekstrarstaða sinna fyrirtækja eigi enn eftir að versna á næsta hálfa árinu, með tilheyrandi fækkun starfsfólks.
Meginástæður erfiðleika í rekstri nú röktu aðildarfélagar Viðskiptaráðs til falls krónunnar, hás vaxtastigs, samdráttar í eftirspurn og takmarkaðs aðgangs að lánsfé. Að mati flestra þátttakenda hafa stjórnvöld ekki gert nóg til að koma til móts við fyrirtæki í erfiðu rekstrarumhverfi, þrátt fyrir að það sé metið svo að þau hafi haft til þess nokkuð svigrúm. Engu að síður má ljóst vera að staða ríkissjóðs sé þröng um þessar mundir og á enn eftir að þrengjast.