Ný línulega sjónvarpsrás Sýnar hefur fengið nafnið Vodafone Sport. Í tilkynningu frá Vodafone segir að rásin verði innifalin í áskriftarpökkum Vodafone og Stöðvar 2 þar sem Viaplay Total er innifalið.
Viaplay og Sýn gerðu með sér samstarfssamning í síðasta mánuði en hluti af samningnum er ný línuleg sjónvarpsrás og einkaréttur Sýnar til að selja Viaplay vörur í áskriftarpökkum Vodafone og Stöðvar 2.
Í tilkynningu segir jafnframt að núverandi viðskiptavinir Vodafone sem eru þegar með áskriftarpakka munu fá sendar rafrænar leiðbeiningar á næstu dögum um hvernig hægt er að virkja áskrift.
„Það er okkur mikið ánægjuefni að kynna viðskiptavinum okkar nýja línulega sjónvarpsrás Vodafone Sport þar sem allt það besta frá Viaplay Sport verður sýnt hverju sinni," segir Sesselía Birgisdóttir framkvæmdastjóri hjá Vodafone.