Smásalar í Bandaríkjunum vonast til að hinn árlegi tilboðsdagur Svartur föstudagur (e. Black Friday), sem fer ávallt fram daginn eftir þakkargjörðarhátíðina, blási lífi í eftirspurn neytenda sem hefur verið heldur dræm undanfarin misseri.
Í frétt Wall Street Journal um málið segir að neytendur hafi haldið þétt um budduna á yfirstandandi ári nema þegar þeim býðst góð tilboð.
Meðal þeirra smásölukeðja sem skýrðu frá hækkun á sölu á síðasta ársfjórðungi voru Walmart, Gap og T.J. Maxx, sem þykir til marks um að neytendur séu tilbúnir til að eyða þegar þeir sjá réttu vörurnar á sanngjörnu verði. Neytendur haldi áfram að draga úr kaupum á vörum eins og fatnaði og skóm, á meðan þeir eyði meira í mat og aðrar nauðsynjar.
Þrátt fyrir að verðbólga hafi lækkað vestanhafs hafa verðhækkanir ekki gengið til baka. Því hafa margir neyðst til að skera niður útgjöld í heimilisbókhaldinu.