Ríkisstjórn Minnesota undir leiðsögn Tim Walz, núverandi varaforsetaefnis Demókrata, samþykkti á síðasta ári ný lög um endurhæfingu og fjárfestingu í fangelsiskerfi Minnesota.

Frumvarpið, Minnesota Rehabilitation and Investment Act (MRRA), hefur það markmið að breyta fangelsiskerfi ríkisins þar sem áhersla er lögð á það hvernig fangar eyða tíma sínum í fangelsi frekar en hversu lengi þeir sitja inni.

Aaron Swanum, talsmaður fangelsismálastofnunar Minnesota (e. Minnesota Department of Corrections), segir í samtali við Viðskiptablaðið að kerfisbreytingarnar séu þegar í ferli og er búist við fullri innleiðingu í janúar 2025.

Hann vitnar í kynningu frumvarpsins þar sem minnst er á samfélagsþjónustu og önnur verkefni sem hafa reynst mjög árangursrík þegar kemur að því að draga úr misferli og endurkomu fanga í fangelsi.

„Núverandi kerfi okkar beinist fyrst og fremst að neikvæðum afleiðingum þess að taka ekki þátt í mikilvægum verkefnum. MRRA breytir hvatanum þannig að fólki sé ekki refsað fyrir að taka ekki þátt, heldur græðir það á þátttöku. Ávinningur er þá áunninn frekar en veittur sjálfkrafa.“

Hingað til hafa fangar í Minnesota ekki getað losnað fyrr vegna góðrar hegðunar og hefur það því skipt litlu máli hvernig þeir haga sér á meðan á fangelsisvist þeirra stendur. MRRA kemur til með að breyta því.

Samkvæmt nýju lögunum geta fangar sem sýna framfarir losnað fyrr úr fangelsi og fengið allt að 17% af refsingartíma sínum stytt. Eftir að hafa losnað geta þá fyrrum fangar sem sýna hegðunarbreytingar sömuleiðis stytt samfélagsþjónustu sína.

Rúmlega 7.400 fangar sitja nú inni í fangelsum í Minnesota.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Búist er við því að lögin muni sömuleiðis spara ríkinu pening. Fyrrum verkefni eins og The Challenge Incarceration Program sparaði fangelsiskerfinu 4.600 dali á hvern fanga og vonast talsmenn frumvarpsins til að nýja kerfið muni gera slíkt hið sama.

Rúmlega 7.400 fangar sitja í fangelsum í Minnesota en hátt í 95% þeirra munu einn daginn losna og segja talsmenn ríkisstjórnarinnar það vera skýran hvata til að umbreyta kerfinu.

Fangar missa ekki kosningarétt

Það hefur lengi þekkst í bandaríska fangelsiskerfinu að fangar missi kosningarétt sinn um leið og þeir eru dæmdir. Í sumum fylkjum hafa fangar misst réttinn til æviloka en hátt í 4,4 milljónir fyrrum fanga í Bandaríkjunum geta ekki kosið sökum glæpaferils.

Hæstiréttur Minnesota staðfesti í síðustu viku endurnýjun á lögum frá 2023 sem tryggja að fangar fái kosningarétt sinn til baka um leið og fangelsisvist þeirra lýkur. Ríkisstjórinn Tim Walz undirritaði lögin en tímasetningin er talin mjög mikilvæg þar sem Bandaríkjamenn geta byrjað að kjósa til forseta 20. september nk.

„Sem ríkisstofnun fylgir fangelsisstofnun Minnesota lögunum og tekur ekki afstöðu til þeirra laga. Ríki eru hins vegar oft kölluð tilraunastofur lýðræðis vegna þess að hvert ríki fylgir sjálfstæðri stefnu. Hvert ríki getur þá líka ákveðið hvort eða hvernig einstaklingur sem er dæmdur fyrir glæp missir kosningaréttinn sinn,“ bætir Aaron við.

Áður en lögin voru samþykkt þurftu glæpamenn fyrst að ljúka skilorði til að geta endurheimt kosningarétt sinn. Áætlað er að um 55 þúsund manns sem eru á sakaskrá hafi sjálfkrafa öðlast kosningarétt sinn í kjölfar laganna í Minnesota.