Vátryggingatekjur Varðar trygginga ehf. jukust um 15% á milli ára og námu 17,8 milljörðum króna í fyrra. Hagnaður af rekstri á árinu var 840 milljónir og arðsemi eigin fjár 8,7%.
Aðalfundur Varðar fór fram 7. mars þar sem samstæðureikningar voru samþykktir.
Tjón á árinu var 13,3 milljarðar og hækkaði um 18% milli ára en í fréttatilkynningu segir að þróun tjónskostnaðar hafi verið góð þrátt fyrir óvenju kostnaðarsöm brunatjón. Rekstrarkostnaður á árinu var 3,4 milljarðar.
„Okkar markmið er að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og við erum afar stolt af því að hafa fjölgað viðskiptavinum meira á síðasta ári en sem nemur hlutfallslega stækkun markaðarins. Starfsfólk Varðar býr yfir miklum metnaði og gleði. Það er virkilega gaman að vera hluti af þessu teymi. Þá heldur samstarfið við Arion áfram að gefa af sér ný tækifæri til vaxtar og erum við bjartsýn fyrir framtíðinni. Starfsemi Varðar gekk vel á síðasta ári. Markmið félagsins um vöxt og aukningu markaðshlutdeildar náðust og sömuleiðis var ánægjulegt að sjá viðsnúning í fjárfestingatekjum frá erfiðu ári 2022.” segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar
Heildareignir Varðar í árslok námu 32,7 milljörðum króna sem er hækkun um 11% á árinu.
Fjárfestingaeignir námu 30,5 milljörðum króna og var handbært fé 499 milljónir.
Eigið fé félagsins hækkaði um 9% milli ára og var í árslok 10 milljarðar.
Eiginfjárhlutfall var 30,9%. Gjaldþol félagsins samkvæmt Solvency II var 142% í árslok en var 145% í lok árs 2022.