Auglýsingaherferðin Ég bara spyr?, er framleidd af Hvíta húsinu fyrir VR. Um er að ræða auglýsingar þar sem leikararnir Þorsteinn Bachmann og Elma Lísa Gunnarsdóttir, bregða sér í hlutverk fréttalesara og lesa t.d. eftirfarandi skilaboð:

„Verkalýðshreyfingin er alltaf að væla um að hækka laun, svo fara allir að grenja þegar forstjórar fá launahækkun. Ákveðið ykkur, ætliði að vera með eða á móti launahækkunum? Ég bara spyr.“

„Vaxtahækkanir eru launahækkanir ríka fólksins, svo rétt, og það er löngu kominn tími á lífskjarasamninga forstjóra og fjármagnseiganda, og nú er sá tími kominn, allir glaðir.“

Á facebook síðu Ég bara spyr þar sem auglýsingarnar birtast, er ekki að finna upplýsingar um hver standi þar á bakvið. Samkvæmt reglum Facebook og aðgerðaráætlun Evrópusambandsins gegn upplýsingaóreiðu skal koma skýrlega fram hver kosti skoðanamótandi auglýsingar, og að hverjum auglýsingarnar beinast. Þessar upplýsingar er ekki að finna á Facebook-síðu Ég bara spyr.

Þorsteinn Bachmann, önnur stjarnan í auglýsingum sagði í samtali við Viðskiptablaðið, að honum væri óheimilt að gefa upp hver kostaði auglýsingarnar.

Elín Helga Sveinbjörnsdóttir framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Hvíta Hússins, staðfesti að auglýsingaherferðin væri unnin fyrir og kostuð af VR. Hún hafði ekki kynnt sér reglur Facebook um aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu sérstaklega.

Formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, vildi ekki tjá sig um málið, né staðfesta að auglýsingarnar séu á vegum félagsins. Fjölmiðlanefnd hafði ekki fengið veður af auglýsingunum þegar blaðamaður leitaði til nefndarinnar, en ætlar að skoða málið.

Löggjöf gegn upplýsingaóreiðu

Í byrjun árs 2019 voru gerðar breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, með það að markmiði að bregðast við nafnlausum áróðri í aðdraganda kosninga, sem hafði borið á í kosningum síðustu ára. Samkvæmt lögunum skulu auglýsingar sem hafa skoðunarmótandi áhrif vera merktar auglýsanda eða ábyrgðarmanni. Lögin gilda þó ekki um hagsmunasamtök eða verkalýðsfélög, aðeins stjórnmálasamtök sem hyggjast bjóða fram til Alþingis- eða sveitastjórnarkosninga.