Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air ætlar að hefja aftur flug til Moskvu í gegnum dótturfélag sitt Wizz Air Abu Dhabi frá og með 3. október. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times. Flugfélagið mun fjlúga daglega á milli Abú Dabí og Moskvu, en það hafði hætt öllum flugferðum til Rússlands í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.
Wizz Air Abu Dhabi er fyrirtæki sem er annars vegar í eigu Wizz Air og hins vegar í eigu ríkisfjárfestingafélagisins ADQ. Önnur flugfélög í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eins og Emirates og Etihad hafa haldið áfram að fljúga til Rússlands þrátt fyrir innrásina. Nú fylgir Wizz Air Abu Dhabi því eftir. Sérfræðingar telja ákvörðun Wizz Air skaða orðspor flugfélagsins og að það gæti vegið þyngra en fleiri seldar flugferðir.
Wizz Air var eitt af þeim evrópsku flugfélögum sem urðu hvað mest fyrir barðinu á flugbanni í gegnum Úkraínu í kjölfar innrásarinnar. 7% af áætlunarflugum félagsins í sumar áttu upprunalega að vera til og frá Úkraínu.
Flugfélagið sagði í yfirlýsingu að það væri að hefja aftur flug til Rússlands til að mæta ferðaþörf farþega sem vilja fljúga til og frá Rússlandi frá Abú Dabí. „Wizz Air Abu Dhabi er flugfélag í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og starfar í samræmi við lög og reglur þar í landi.“