Samkeppniseftirlitið greiddi 96,7 milljónir króna til lögmannsstofunnar Lagastoðar á árinu 2024 eða að meðaltali 8 milljónir á mánuði, samkvæmt opnum reikningum ríkisins.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er Lagastoð í raun eina lögmannsstofan á landinu sem Samkeppniseftirlitið leitar til.
Fjárframlög Samkeppniseftirlitsins fyrir árið námu 582 milljónum króna samkvæmt fjárlögum og runnu því 16,6% af öllum fjárframlögum embættisins beint til Lagastoðar í fyrra en greiðslurnar hafa aukist til muna á síðustu árum er eftirlitið heldur áfram að standa í fjölmörgum dómsmálum.
Samhliða því að greiðslur SKE til Lagastoðar hafa nærri tvöfaldast á milli ára hefur Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ítrekað kvartað yfir fjárframlögum til embættisins og krafist þess að fá meira fé.
Greiðslur Samkeppniseftirlitsins til Lagastoðar eru í algjörum sérflokki í samræmi við lögmannskostnað annarra ríkisstofnana.
Ef stærstu lögmannsstofur landsins eru skoðaðar námu heildargreiðslur alls níu ríkisstofnana til Logos 25,8 milljónum á árinu.
Lex lögmannsstofa veitti nítján ríkisstofnunum lögfræðiþjónustu í fyrra og námu heildargreiðslur 51,4 milljónum króna.
Lögmannsstofan Juris veitti sex ríkisstofnunum þjónustu á árinu og námu heildargreiðslur til Juris 18,8 milljónum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.