Hagnaður Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins nam 16,2 milljörðum króna, samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi bankans. Það er veruleg aukning frá sama tímabili árið áður, þegar hagnaðurinn nam 9,9 milljörðum króna.
Arðsemi eiginfjár var 16,1% fyrstu sex mánuði ársins, samanborið við 10,3 prósent á sama tíma í fyrra, en hagnaður á hlut nam 11,22 krónum samanborið við 6,92 krónur árið áður.
Hagnaður á öðrum ársfjórðungi einum nam 9,8 milljörðum króna og var arðsemi eiginfjár þá 19,7 prósent.
„Góð afkoma skýrist af ýmsum þáttum, en mestu skiptir að þær stoðir sem mynda fjölbreytta starfsemi Arion samstæðunnar gengu nær allar vel á fjórðungnum. Þá hefur markaðsfjármögnun bankans þróast með jákvæðum hætti. Hvað þjónustu við fyrirtæki viðkemur var þetta með umsvifameiri ársfjórðungum, bæði í lánveitingum og ráðgjöf, þar sem lækkandi vaxtaumhverfi hefur leitt til aukinna fjárfestinga í hagkerfinu. Einnig hefur virðisbreyting á eignarhlut Arion í Arnarlandi í Garðabæ, sem nú er í söluferli, jákvæð áhrif á uppgjör bankans,” segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka í uppgjörinu.
Vaxtamunur bankans á fyrri hluta ársins mældist 3,3 prósent og jókst lítillega frá fyrra ári. Hreinar þóknanatekjur námu 9,1 milljarði króna, samanborið við 7,3 milljarða króna árið áður.
Kjarnatekjur, sem samanstanda af hreinum vaxta-, þóknana- og tryggingatekjum (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfsemi), hækkuðu um 17,8 prósent frá fyrri hluta 2024.
Á öðrum ársfjórðungi námu hreinar þóknanatekjur 4,6 milljörðum króna og afkoma dótturfélagsins Varðar var jákvæð, með 800 milljón króna hagnað.
Aðrar rekstrartekjur, að mestu tilkomnar vegna virðishækkunar á þróunareignum, námu 1,3 milljörðum króna.
Virði Arnarlands eykst
Í uppgjöri fjórðungsins hafði virðisbreyting á eignarhlut Arion banka í Arnarlandi í Garðabæ jákvæð áhrif, en félagið er nú í söluferli.
Þá lauk bankinn formlega kaupum á Arngrimsson Advisors í London á fjórðungnum.
„Við lukum á ársfjórðungnum formlega kaupum á starfsemi ráðgjafafyrirtækisins Arngrimsson Advisors Ltd. og er þjónustan sem félagið býður nú hluti af þjónustuframboði bankans. Félagið sinnir eignastýringarráðgjöf fyrir fagfjárfesta með áherslu á erlenda fagfjárfestasjóði og sérhæfðar fjárfestingar,“ segir Benedikt.
Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 5,9 prósent frá áramótum og útlán jukust um 38,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi.
Eiginfjárhlutfallið var 22 prósent í lok júní og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18 prósent, hvort tveggja vel yfir lágmarksviðmiðum.
„Eigin- og lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk,“ segir Benedikt.
Þá bendir hann á að tímamótaákvörðun hafi einnig verið tekin í mánuðinum með samrunaviðræðum við Kviku.
„Stóru tíðindin eru vissulega viljayfirlýsing Arion banka og Kviku banka um samruna félaganna sem undirrituð var 6. júlí síðastliðinn.“
Viljayfirlýsingin felur í sér að hluthafar Kviku fá 26 prósenta hlut í sameinuðu félagi, nái samruninn fram að ganga. Benedikt segir markmiðið skýrt:
„Verði af samrunanum mun það efla þá fjármálaþjónustu sem sameinað félag veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum. Samruninn getur skapað tækifæri til breiðari tekjumyndunar, áhættudreifingar og aukins hagræðis í starfsemi sameinaðs félags og þar með á íslenskum fjármálamarkaði.“
Arðgreiðsla og kaup eigin hlutabréfa námu samtals 19,1 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins