Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun bárust alls 145 um­sóknir um hlut­deildar­lán í októ­ber að and­virði 1,9 milljarða króna en einungis 800 milljónir eru til út­hlutunar fyrir tíma­bilið. HMS segir að „liggi því sem næst fyrir að draga þurfi af handa­hófi úr um­sóknum sem eru utan fyrsta for­gangs.“

HMS opnaði fyrir um­sóknir um hlut­deildar­lán að nýju 4. októ­ber en hægt var að sækja um lánin til 21. októ­ber. Stofnunin stefnir að því að ljúka yfir­ferð inn­sendra um­sókna í lok þessarar viku og mun svo á­kvarða hverjar þeirra hljóta hlut­deildar­lán.

Hlut­deildar­lánin eru veitt til kaupa á nýjum í­búðum og standa þau til boða fyrir fyrstu kaup­endur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðast­liðin fimm ár og eru undir til­teknum tekju­mörkum.

Af þeim 145 um­sóknum sem bárust um hlut­deildar­lán í októ­ber voru 112 um­sóknir með sam­þykktu kaup­til­boði og 33 um­sóknir án kaup­til­boðs. Heildar­fjár­hæð um­sókna í októ­ber var um 1.870 milljónir króna og þar af voru um­sóknir með sam­þykktu kaup­til­boði sam­tals um 1.447 milljónir króna.

„Í for­gangi eru um­sóknir þar sem stað­fest kaup­til­boð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlut­deildar­lána veitt til kaupa á í­búðum utan höfuð­borgar­svæðisins. Ekki verður hægt að gefa út láns­vil­yrði fyrr en allar um­sóknir hafa verið metnar,“ segir í til­kynningu HMS.