Hluthafar Regins samþykktu á hluthafafundi í dag að veita stjórn fasteignafélagsins heimild til hækkunar á hlutafé félagsins til þess að efna uppgjör á valfrjálsu yfirtökutilboði í allt hlutafé í Eik fasteignafélagi.
Í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar kemur fram að á fimmtudaginn verði birt auglýsing um tilboðið sem tekur gildi á mánudaginn næsta, 10. júlí. Gildistími valfrjálsa yfirtökutilboðsins verður tíu vikur, eða til 18. september 2023.
Heimild stjórnar felur í sér að hækka má hlutafé félagsins um allt að 1.54 milljarða að nafnverði, eða 46,0% eftir útgáfu nýs hlutafjár í kjölfar viðskipta. Skiptihlutfallið í tilboðinu endurspeglar markaðsvirði hvors félags miðað við síðasta viðskiptaverð hluta félaganna þann 7. júní. Markaðsvirði Eikar var þá 35,5 milljarðar króna en Regins 41,6 milljarðar.
Þurfa samþykki handhafa 75% atkvæðaréttar Eikar
Tilboðið verður m.a. háð skilyrðum um að samþykki fáist frá viðeigandi yfirvöldum, svo sem Samkeppniseftirlitinu. Þá þurfa handhafar að lágmarki 75% atkvæðaréttar Eikar að samþykkja tilboðið. Þegar Reginn tilkynnti fyrst um yfirtökutilboðið var upplýst um að það væri háð skilyrði um samþykkis frá handhöfum 67% atkvæðarétta Eikar.
„Fyrirhugað er að hið síðarnefnda skilyrði um samþykki handhafa 75% atkvæðaréttar Eikar verði ófrávíkjanlegt og skal tilboðsgjafa því ekki heimilt að falla frá því eða breyta. Er því um að ræða breytingu frá því sem áður hafði komið fram,“ segir í tilkynningu Regins.
Líkurnar á að yfirtökutilboð Regins verði samþykkt lækkuðu verulega þegar stærsti hluthafi Eikar, fjárfestingarfélagið Brimgarðar, lýsti yfir andstöðu við tilboðið. Brimgarðar eiga yfir 29% hlut í Eik. Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði hvatti Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, Regin til að falla frá yfirtökutilboðinu.
Á föstudaginn síðasta tilkynntu stjórnir Eikar og Reita um að þær hefðu samþykkt að ganga til viðræðna um mögulega sameiningu félaganna.
„Nýlegir atburðir stuðluðu að því að stjórn Eikar kannaði hvort grundvöllur væri fyrir viðræðum við stjórn Reita um mögulegan samruna sem væri hluthöfum hagfelldari en fyrirhugað yfirtökutilboð,“ sagði í tilkynningu Eikar og Reita.
„Í ljósi almenns vilja hluthafa beggja félaga að ná fram aukinni rekstrarhagkvæmni og að lokum í ljósi þess að ekki virðist nægjanlegur stuðningur við aðrar hugmyndir að stærri sameiningu á fasteignamarkaði varð niðurstaðan sú að taka upp formlegar viðræður milli stjórna félaganna.“
Brimgarðar ítreka andstöðu við tilboð Regins
Stjórn Regins sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í gær og áréttaði að hún hyggst standa við áform sín um að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í hlutafé Eikar þrátt fyrir samrunaviðræður Eikar og Reita. Stjórn Regins sagði að fyrir liggur að hluthafar í Eik, sem fara með meirihluta í síðarnefnda fasteignafélaginu, hafi lýst yfir jákvæðum viðbrögðum gagnvart áformunum.
Gunnar Þór ítrekaði í viðtali við Innherja, sem birtist í morgun, að Brimgarðar væru mótfallnir yfirtökutilboði Regins og sagði að þeim þætti „stórfurðulegt“ ef hluthafar Regins myndu samþykkja að leggja formlega fram yfirtökutilboð í Eik.
„Á meðan Eik er með yfirtökutilboð hangandi yfir sér þá er starfsemi félagsins skert því á meðan slíkt tilboð er enn opið þá má félagið til dæmis hvorki kaupa né selja fasteignir eða gefa út skuldabréf án samþykkis hluthafafundar,“ sagði Gunnar Þór við Innherja.
Hann sagði samrunaviðræður Eikar og Reita jákvætt fyrsta skref. Hins vegar þurfi að skýrast betur hvernig vinna megi gegn mögulegum neikvæðum áhrifum á fjármögnunarkjör stærra félags ásamt því hvort samhljómur sé um að búa til fasteignafélag með meiri áherslu á arðgreiðslur.