Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, hefur gert samkomulag við stjórn fyrirtækisins um eigin starfslok. Í tilkynningu segir að viðræður um starfslokin hafi átt sér stað að frumkvæði forstjóra og hefur hann þegar látið af störfum.
„Við þökkum Yngva fyrir hans framlag til félagsins og óskum honum velfarnaðar. Um leið erum við lánsöm að geta leitað til Páls Ásgrímssonar um að leiða félagið tímabundið. Hann hefur fullt traust stjórnar til að leiða félagið þar til nýr fastráðinn forstjóri tekur til starfa,” segir Jón Skaftason, stjórnarformaður.
Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, tekur tímabundið við starfi forstjóra þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn og segir jafnframt að ráðningarferli sé hafið.
„Sýn er frábært fyrirtæki sem er fullt af afburða fagfólki sem leggur ástríðu í störf sín á hverjum degi. Ákvörðun mín að hætta störfum hjá félaginu er rétt ákvörðun fyrir mig á þessum tímapunkti. Ég óska Sýn alls hins besta og þakka kærlega fyrir samstarfið síðustu fjögur ár,” segir Yngvi.