Marie Tullin, sérstakur saksóknari í Danmörku, fer fram á að héraðsdómur Glostrup dæmi breska viðskiptamanninn Sanjay Shah í að minnsta kosti 12 ára fangelsi fyrir víðtæk fjár- og skattasvik.
Tullin krefst þess einnig að Shah verði vísað varanlega úr landi og eignir hans að verðmæti 1,2 milljarða danskra króna verði gerðar upptækar. Samsvarar það um 24,4 milljörðum íslenskra króna.
Marie Tullin, sérstakur saksóknari í Danmörku, fer fram á að héraðsdómur Glostrup dæmi breska viðskiptamanninn Sanjay Shah í að minnsta kosti 12 ára fangelsi fyrir víðtæk fjár- og skattasvik.
Tullin krefst þess einnig að Shah verði vísað varanlega úr landi og eignir hans að verðmæti 1,2 milljarða danskra króna verði gerðar upptækar. Samsvarar það um 24,4 milljörðum íslenskra króna.
„Shah er sekur um fjársvik og tilraunir til fjársvika. Hann skipulagði þetta allt, útbjó öll gögnin og villti fyrir að skattayfirvöldum,“ sagði Tullin við málflutning í Glostrup í dag.
„Hann verður að fá þyngsta efnahagsbrotadóm í sögu Danmerkur,“ bætti hún við.
Samkvæmt Børsen fékk dönsk-rússneska konan Irene Ellert þyngsta efnahagsbrotadóm í sögunni fyrr á árinu er hún var dæmd í níu ára fangelsi fyrir peningaþvætti. Ellert tókst að þvo um 26 milljarða danskra króna í gegnum danskt samlagsfélag með reikninga í eistneska útibúi Danske Bank.
Shah er gefið að sök að hafa verið höfuðpaurinn að baki fjársvika sem fjármálafyrirtækið Solo Capital stundaði en hann stofnaði fyrirtækið árið 2009.
Hægri hönd Shah, breski verðbréfamiðlarinn Mark Patterson, var dæmdur í átta ára fangelsi í mars á þessu ári fyrir þátttöku sína í svikunum.
„Shah var aðalmaðurinn í þessu öllu. Öll brot voru framkvæmd að hans frumkvæði og var hann endanlegur eigandi allra félaganna. Patterson kom inn í myndina þegar brotin voru þegar hafin og á meðan hann hagnaðist um 100 milljónir danskra króna hagnaðist Shah um sjö milljarða danskra króna,“ sagði Tullin í héraðsdómi í dag.
Shah er sakaður um að hafa búið til gerviviðskipti með félög sem voru skráð í Bandaríkjunum og Malasíu og litu út fyrir að vera lífeyrissjóðir.
Solo Capital lét það líta út eins og „lífeyrissjóðirnir“ væru að fjárfesta í Danmörku sæktu þeir um skattaafslætti í kjölfarið. Solo Capital sá um viðskiptin og tók síðan 80% þóknun.
Samkvæmt ákærunni á Shah að hafa tekist að fá skattaendurgreiðslur fyrir um 9 milljarða danskra króna sem samsvarar um 183 milljörðum íslenskra króna.
Viðskiptin áttu sér stað á árunum 2012 til 2015 er skattayfirvöldum varð ljóst að þessir svokallaðu lífeyrissjóðir áttu aldrei neinar eignir eða hlutabréf í Danmörku líkt og fölsuð skjöl sögðu til um.
Shah var handtekinn í Dubaí að beiðni danskra stjórnvalda árið 2022 og framseldur til Danmerkur í desember í fyrra. Shah segist saklaus af öllum ákærum og heldur því fram að hann hafi nýtt sér smugu í dönskum lögum um skattaendurgreiðslur.