Í lok árs 2023 störfuðu 75 apótek hér á landi auk sjúkrahúsapóteks Landspítalans. Rúmlega helmingur apóteka landsins er á höfuðborgarsvæðinu. Algengast er að apótekin séu opin frá 9 á morgnana til 6 eða 7 á kvöldin. Mörg hver bjóða þó upp á lengri opnun, sum hver til miðnættis.
Lyfja og Lyf og heilsa eru stærstu apótekkeðjurnar hér á landi. Velta Lyfju nam 16,6 milljörðum króna á síðasta ári, en hún hefur aukist um 55% frá árinu 2019. Þá hagnaðist Lyfja um 399 milljónir króna í fyrra sem gerir um 2,4% hagnaðarhlutfall.
Samanlagður hagnaður Lyfju á síðustu fimm árum nemur 2,1 milljarði króna. Festi skrifaði undir kaup á öllu hlutafé Lyfju þann 13. júlí 2023, og þann 14. júní 2024 undirrituðu Festi og Samkeppniseftirlitið sátt vegna kaupanna. Uppgjör kaupanna fór fram 1. júlí 2024.
Lyf og heilsa fylgir fast á hæla Lyfju með 12,5 milljarða króna veltu á síðasta ári, en hún hefur aukist um 48% frá árinu 2019.
Lyf og heilsa rekur fjölda apóteka undir merkjum Apótekarans og Lyfja og heilsu. Hagnaður félagsins nam 648 milljónum króna á síðasta ári og nam hagnaðarhlutfall þess því 5,2% á síðasta ári.
Nánar er fjallað um lyfsala í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.