María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans segir að fjarskiptageirinn hafi vaxið gríðarlega hratt á flesta rekstrarlega mælikvarða undanfarin ár samhliða hraðri tækniþróun. Gagnamagn sem hlaðið er upp og niður sé í veldisvexti árlega og notendur geri síauknar kröfur um meiri hraða, bætt gæði og áreiðanlegra samband.

„Þetta er rosalega mikil og hröð þróun og mikil fjárfestingarþörf vegna þessa, en að sama skapi er mjög virk samkeppni á þessum markaði sem hefur gert það að verkum að tekjuvöxturinn hefur verið mjög hóflegur. Spurningin sem við stóðum svolítið frammi fyrir var hvernig við ættum að byggja ofan á þennan vöxt og fjölga tekjustraumum til að fá aukna áhættudreifingu í reksturinn og finna tækifærin til vaxtar,“ segir María Björk.

Spurð um keppnina um athygli neytenda segir María að ákveðið hafi verið að reyna ekki að ná til allra.

„Síminn var auðvitað framan af sínum líftíma með einokunarstöðu þannig að fyrirtækið kom frá því að þjónusta alla landsmenn og vera allt fyrir alla. Síðan hefur það þróast en það er langt síðan fyrirtækið var fært úr formi ríkisrekstrar, og núna snýst allt um viðskiptavininn. Það er gríðarlega mikil þjónustumenning hérna og það var mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum þessa stefnumótun einmitt til þess að skerpa aðeins á því fyrir hvað við stöndum, hverjir eru okkar kjarnamarkhópar, hverja við ætlum að tala við í okkar markaðssetningu og annað.“

Síminn skilgreini sig í dag sem stafrænt þjónustufyrirtæki en allt miði að því að skapa svokallað stafrænt vistkerfi. Viðskiptavinir geti þannig komið inn í Síma-samfélagið þar sem allar þjónustur og vörur tengjast saman og skapa heildræna notendaupplifun. Sem hluta af stefnumótun félagsins hafi rekstrinum verið skipt upp í einstaklings- og fyrirtækjasvið.

„Við ætlum að sækja vöxt á báðum þessum mörkuðum. Við skiptum þeim upp vegna þess að þetta eru ólíkir markaðir með ólíkar þarfir og við þurfum að nálgast þá öðruvísi, bæði með tilliti til vöruframboðs, en ekki síður með tilliti til þess hvernig við högum sölu, þjónustu og markaðssetningu. Þannig að okkur fannst, miðað við þá stefnu sem við höfum sett okkur, mikilvægt skref að greina þarna á milli,“ segir María Björk.

„Í ytri vextinum erum við auðvitað að skoða ýmiss konar tækifæri sem standa til boða. En við munum alltaf horfa á þau út frá þessum þremur tekjustoðum og gera það sem Síminn hefur alltaf gert, að nálgast ytri vöxt af skynsemi og og taka vel ígrundaðar ákvarðanir,“ segir hún enn fremur en samþætting í rekstri sé flóknasti hlutinn.

„Það snýr ekkert endilega bara að því að ná fram kostnaðarsamlegð, sameina einhverjar deildir eða annað. Þetta snýst um hvernig einn rekstur getur stutt við annan og hvernig einn plús einn getur verið þrír. Við erum þess vegna að horfa á það frekar taktískt.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.