Líkt og með marga aðra geira atvinnulífsins eru oft eitt eða tvö fyrirtæki sem skera sig frá hinum hvað stærð varðar.

Í tilfelli fyrirtækja í skipasmíði er það Slippurinn Akureyri sem hefur verið með langmestar tekjur fyrirtækja í innlendri skipasmíði. Tekjur fyrirtækisins á síðasta ári námu 3,8 milljörðum króna, jukust um þriðjung frá árinu áður þegar þær námu 2,9 milljörðum króna.

Nýsmíði á skipum hefur nánast lagst af á Íslandi og því sinna mörg þessara fyrirtækja öðru.

Fyrir utan hefðbundin verkefni þá reiðir Slippurinn sig á tekjur af því að setja vinnslubúnað í skip og frystihús og þjónustar fiskeldisfyrirtæki, stóriðju, virkjanir og verksmiðjur.

Næst á eftir Slippnum kemur fjölskyldufyrirtækið Trefjar í Hafnarfirði, sem velti 2,1 milljarði króna á síðasta ári. Jókst velta Trefja um 29% milli ára.

Félagið, sem var stofnað árið 1977, framleiðir Cleopatra fiskibátana úr plasti en um það bil fimm hundruð bátar hafa verið smíðaðir. Trefjar framleiða einnig heita potta og selja vörur þeim tengdum.

Þar á eftir kemur Stálsmiðjan-Framtak, sem rekur slippinn í Reykjavíkurhöfn og vélsmiðju í Garðabæ. Félagið starfar einnig fyrir orkuver og áliðnað sem er vaxandi þáttur í starfseminni.

Nánar er fjallað um skipasmíðastöðvar í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.