Sumarið er tíminn til að ferðast, kanna nýja staði og safna minningum. En hvert á að fara þegar valmöguleikarnir eru endalausir? Við spurðum nokkra einstaklinga úr atvinnulífinu hvaða áfangastaðir standa upp úr hjá þeim – frá suðrænum ströndum til norrænnar fegurðar, frá hámenningu til afslappaðs strandlífs.

Hér er uppáhalds sumarleyfisstaður Einars Stefánssonar.

„Flatey er búin að vera okkar sumardvalarstaður í hálfa öld. Þetta er yndislegur staður,“ segir Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum og annar stofnenda líftæknifyrirtækisins Oculis.

Tengsl fjölskyldunnar við eyjuna eru djúpstæð. „Tengdafaðir minn er fæddur í Flatey. Húsið okkar er gömul verslun sem afi Bryndísar, konunnar minnar, reisti. Þetta er steinsteypt hús frá 1907 og með eldri steinsteyptu húsum á landinu. Fjölskyldan gerði það svo upp fyrir fjörutíu árum. “

Flatey er stærsta Vestureyjan á Breiðafirði og þar er einstakt veðurfar. „Tengdafaðir minn sagði alltaf að það væri alltaf gott veður í Flatey og ég held að það sé rétt hjá honum.“ Aðdráttaraflið liggur meðal annars í náttúrunni: „Mikið af skemmtuninni þarna er að sækja sjóinn, veiða fisk en sömuleiðis er gríðarlega mikið fuglalíf.“

Flatey er þó ekki aðeins náttúruperla heldur líka menningarperla.„Þetta var eitt helsta verslunar- og menningarpláss á landinu á nítjándu öldinni og það er dálítið gaman að segja frá því að kaupmennirnir og athafnamennirnir sem þarna voru, voru með félag sem hét Framfarafélag Flateyjar. Þeir stofnuðu bókhlöðu á fyrri hluta nítjándu aldar, keyptu tímarit, voru með leshring og fræðimann.“

Þrátt fyrir þessa andlegu menningu voru vinnuaðferðir enn frumstæðar. „Á sama tíma og þessi hámenning var í andlegum efnum þá höfðu þeir ekki flutt inn hjólið. Karlarnir sem báru kolin eða saltið úr skipunum báru það á bakinu og fiskinn á milli sín á handbörum.“ Einar bendir á þennan sérstaka menningarlega mun. „Þessir athafnamenn sem höfðu komið til Bretlandseyja og Kaupmannahafnar og keyptu þaðan bækur og tímarit, voru kunnugir menningu og þar með verkmenningu meginlandsþjóðanna, fluttu hana ekki með sér til Íslands. Þeir fluttu inn þessa hugmenningu en ekkert af verkmenningunni. Hann er mjög merkilegur þessi tvískinnungur í menningunni en þetta náttúrulega einkennir menningu Íslands, þessi bóklega hámenning en frumstæða verkmenning.“

Flatey er því ekki bara falleg eyja heldur spegilmynd sögunnar og menningar Íslands.

Fjallað er um málið í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.