Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, var upphaflega byggt upp með það í huga að verða seinna meir eignastýringarfyrirtæki.
Björgólfur segir að félagið, sem var stofnað árið 2004, hafi verið með allt til staðar til að stíga það skref. Fyrir nokkrum árum ákvað hann að falla frá þeim áformum þar sem hann taldi lítinn ávinning í því fyrir sig og að það hefði sennilega aðeins í för með sér auka vesen að vera ábyrgur fyrir annarra manna peningum.
„Viðskiptalíkan eignastýringarfyrirtækja – þar sem fólk er að binda fjármagn sitt í sjóði í 5-6 ár, borga hlutdeild af hagnaði og prósentu til sjóðstjóra – er dautt að mínu mati,“ segir Björgólfur.
„Það eru alltof margir í þessum bransa og regluverkið er bara að verða þyngra. Þessi fyrirtæki eru mörg hver að verða undir miklum þrýstingi og prósentutölurnar hafa verið að minnka. Fyrir vikið erum við að sjá mörg þeirra sameinast, og stóru aðilarnir, eins og Blackstone og Apollo, eru að bara að verða stærri. Þetta virkar hjá þeim stóru en ég hef ekki mikla trú á því að stofna ný eignastýringafyrirtæki.“
Árið 2020 stofnaði Björgólfur annað fjárfestingarfélag, Novator Capital, til að halda utan um nokkrar fjárfestingar, þar á meðal í DNEG. Nafni fjárfestingafélagsins var breytt í NaMa Capital sumarið 2023 með það í huga að fá inn meðfjárfesta með sér í verkefnin í Indlandi.
Björgólfur segir að félagið hafi hætt við að fara þá leið, m.a. þar sem regluverkið hafi reynst of flókið. Stefnt sé að því að breyta nafninu aftur í Novator Capital.
„Fjárfestar geta í staðinn bara fjárfest með okkur inni í almenningshlutafélagi. Þegar ég horfi til baka þá hafa farsælustu verkefnin mín verið í skráðum félögum. Þá er maður bara stór hluthafi með aðra hluthafa í kringum sig. Ef fólk er ekki ánægt með hlutina þá getur það bara selt sig út.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Björgólf í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.